Það voru frábærar fréttirnar sem bárust eftir skipulagða sýnatöku barna á Krílakoti í Bergi í gær að ekkert barn hefði greinst með smit.
Starfsmenn fóru síðan í seinni sýnatöku í morgun og er þeirra niðurstaða að vænta um helgina.
Leikskólinn Krílakot mun því að öllu óbreyttu opna á ný eftir sóttkví starfsmanna og nemenda á mánudaginn næsta, 9. nóvember, kl. 10.00.
Fyrstu tímar dagsins eru nauðsynlegir fyrir starfsfólk til að skipuleggja næstu viku en búið er að skipta leikskólanum upp í sóttvarnarhólf skv. tilmælum og verður stofa útbúin í stóra salnum.
Það hefur verið gott að finna samheldnina, jákvæðnina og bjartsýnina sem einkennt hefur allt samfélagið síðustu daga. Nú er stórt verkefni framundan sem við munum sigra ef við leggjum okkur fram við að vinna að sigrinum saman.
Einstaklingsbundnar smitvarnir eru mikilvægar eftir sem áður, handþvottur, sprittun og grímur þar sem ekki er möguleiki á að halda 2 m fjarlægð við næsta mann.