Kartöflurnar teknar upp

Eins og fram hefur komið hér á síðunni er Árskógarskóli þátttakndi í grænfánaverkefninu Skólar á grænni grein, sem er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að auka umhverfismennt og stykja umhverfisstefnu í skólum. Markmið verkefnisins er m.a. að bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku, efla samfélagskennd innan skólans og auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.

Eitt af þeim verkefnum sem við höfum ráðist í undir grænfánaverkefninu er kartöflurækt. Í vor settu nemendur niður kartöflur í garð sem Guðmundur bóndi í Stærra-Árskógi plægði og tætti fyrir okkur í vor. Uppskeran var alveg ágæt og fengu nemendur þónokkuð af kartöflum með sér í poka heim að upptekt lokinni. Einnig voru kartöflur settar í geymslu hér í skólanum en þær verða notaðar í heimilisfræðikennslunni í vetur.