Jólaball og fleira

Jólaball og fleira

Komið sæl öll

Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum hjartanlega fyrir komuna á jólaballið og að aðstoða okkur við að klæða börnin og komast á áfangastað, þetta var ómetanleg hjálp. Jólaballið okkar í Bergi heppnaðist vel að okkar mati og verður vonandi okkar ballstaður í framtíðinni. Við vorum fljótari en við þorðum að vona að komast á staðinn sem varð til þess að ballið byrjaði aðeins fyrr en áætlað var en vonandi var það sársaukalaust af ykkar hálfu, börnin jú biðu eftir að dansinn hæfist. Jólasveinninn okkar hann Kertasníkir var frábær og langar mig að segja ykkur að hann færði leikskólanum gjöf í tilefni dagsins þ.e. spil sem heitir Gaman saman með Pétri og úlfinum. Spilið á eftir að nýtast okkur vel við tónlistarnám hér í Krílakoti enda ein af okkar aðaláherslum í starfi. Auk þess fengu öll börnin spil eða púsl frá Sveinka, frábær gjöf. Undirleikararnir okkar slógu í gegn og sendum við þeim bestu þakkir fyrir frábæran undirleik.  Þið sjálf voruð einnig frábær og börnin ykkar einnig, dugleg að syngja með og dansa í kringum jólatréð og gera þennan dag eins skemmtilegan og hann var. Að loknu jólaballi fóru börn og starfsfólk beint í jólamatinn hjá Halldóru og Möggu sem var eins og endra nær hinn besti matur og ekki skemmti jólaísinn fyrir sem við fengum í eftirrétt.

Það er smá breyting á matseðlinum þessa viku.

Mán: ofnbakaður fiskur
Þri: Kjúklingur
Mið:soðinn fiskur
Fimmt: mjólkurgrautur
Föst: plokkfiskur

Bestu þakkir fyrir allt og gleðileg jól

Hafið það sem allra best yfir hátíðarnar

Kveðja frá öllum í Krílakoti