Fanney (Skakkalandi) og Dagbjört fóru í gær á fræðslufund Landverndar um Skóla á grænni grein á Siglufirði. Þetta var vel sóttur og mjög áhugaverður fundur um umhverfismál. Meðal annars var þar kynning frá leikskólanum Naustatjörn á Akureyri og Grunnskóla Fjallabyggðar (á Siglufirði) um þeirra vinnu í umhverfismálum og Helena Óladóttir verkefnastjóri Náttúruskóla Reykjavíkur fjallaði um menntun til sjálfbærni.
Á fundinum fengum við margar góðar hugmyndir sem við getum nýtt okkur eins og t.d. að útbúa skóhlífar úr dúkaefni (borðdúkaefni) í stað þess að kaupa inn plasthlífar. En einnig var ánægjulegt að fá staðfest að þó við eigum nokkuð í land til að fá Grænfánann, þá erum við að gera margt gott hér á Krílakoti hvað varðar endurvinnslu og endurnýtingu.