Okkur var að berast þessi ánægjulega tilkynning:
Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, mun taka á móti gjöf að verðmæti nærri milljón króna í dag, miðvikudaginn 3. desember kl. 13:15. Gjöfin er ætluð leikskólum landsins til að styðja við menntun í landinu á þessum erfiðu tímum og minna á gildi nýsköpunar. Um er að ræða nýjan tónlistardisk sem miðar að því að kenna lestur og stafina. Fær hver stafur í íslenska stafrófinu sitt lag þannig að í gegnum söng og texta munu börn læra að þekkja stafina og auka orðaforða sinn. Tónlistardisknum fylgir bók þar sem allir textar laganna eru prentaðir og um leið og krakkarnir syngja með geta þau æft sig í lestri með því að fylgjast með textanum. Ekki er vitað til að svona diskur hafi verið gefinn út áður hér á landi en um er að ræða eins konar söngleik til lestrarkennslu. Diskurinn innheldur 35 lög og er tónlistin fjölbreytt. Þar er að finna allt frá jazzi til popps, óperu til rokks, og eru þessi 35 lög sem eru á disknum hugsuð þannig að þau kenni ekki aðeins stafina og auki orðaforða, heldur opni einnig heim tónlistar fyrir barninu í leiðinni. Gjöfina afhendir útgáfufyrirtækið Sena og rithöfundurinn Bergljót Arnalds. Athöfnin á sér stað á Tjarnaborg, Tjarnagötu 33, kl. 13:15 í dag.
Nánari upplýsingar veitir Bergljót Arnalds, s. 691 0099