Framkvæmdir á leikskólalóð Krílakots hófust um leið og leikskólinn lokaði í byrjun júlí. Samið hafði verið við Georg Hollander og samstarfskonu hans um að endurhanna og byggja upp lóðina. Ákveðið var að ráðast í fyrsta hluta þeirrar framkvæmdar í sumar en þar sem foreldrar í foreldrafélagi Krílakots sýndu framkvæmdunum mikinn áhuga og voru tilbúnir að taka þátt í verkefninu var ákveðið að ráðast í fleiri þætti framkvæmdarinnar en áætlað var í upphafi. Ein stór vinnuhelgi er þegar búin og hægt er að fullyrða að miklu hafi verið áorkað á þeim tíma. Síðan hafa einstaka foreldrar verið að mæta og hjálpa til við uppbyggingu lóðarinnar. Ljóst er að framkvæmdirnar munu standa alveg fram að opnun leikskólans og líklega eitthvað lengur í ágúst, í samstarfi við leikskólastjóra og starfsfólk Krílakots.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá lóðina á Krílakoti taka stakkaskiptum og upplifa þá staðreynd að foreldrar leikskólabarna leggja mikið á sig í þágu leikskólans.
Meðfylgjandi er bréf sem Georg Hollander, hönnuður verkefnisins vill koma á framfæri til íbúa sveitarfélagins.