Komið sæl
Í dag var mikið um að vera hér í Krílakoti. Við byrjuðum á að fá okkur staðgóðan morgunverð og svo var hoppað upp í rútu og haldið í sveitaferð. Þetta árið voru það ábúendur á bænum Hofi sem tóku á móti okkur, þau Hanna og Árni, og fengum við frábærar móttökur. Við sáum kindur með lömbin sín, litla heimalinga sem drukku úr pela, lítinn gæfan kálf, kýrnar og svo fengu börnin að skella sér á hestbak. Foreldrafélagið bauð uppá Kókómjólk og kringlur til að hlaða batteríin í sveitinni. Eftir sveitasæluna var haldið heim í Krílakot og voru þá börn fædd 2010 útskrifuð en þau fara í Kátakot í haust. Gerður frá Landvernd var þá mætt og afhenti börnum og starfsfólki Grænfánann í annað sinn fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt að mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu. Eftir formlega afhendingu og flöggun var foreldrafélagið með grillveislu fyrir börn, kennarar, foreldra og aðra gesti og voru það glöð og þreytt börn sem lögðust í hvíld eftir annasaman morgun.
Það er gaman að segja frá því að allir skólar Dalvíkurbyggðar flögguðu Grænfána í dag og getum við verið virkilega stolt af því.
Við þökkum öllum sem komu að þessum skemmtilega degi kærlega fyrir og ekki skemmdi veðurblíðan fyrir allri ánægjunni.
Bestu kveðjur frá öllum í Krílakoti