Breski fáninn við hún á Krílakoti

Breski fáninn við hún á Krílakoti

Eflaust hafa einhverjir bæjarbúar velt því fyrir sér af hverju breski fáninn blakti við hún á Krílakoti í dag. Ástæða þess er að í dag var haldinn enskur dagur í skólanum, sem hluti af samstarfsverkefni sem Krílakot er þátttakandi í á vegum menntaáætlunar Evrópusambandsins, Comenius. Ýmislegt var brallað, m.a. fengu börnin að smakka örlítið af beikoni, eggjum, bökuðum baunum og pulsum. Þau skoðuðu ensk leikföng og bækur, æfðu sig að syngja um Kalla litla kónguló á ensku, auk þess sem Englendingur sem er búsettur hér á Dalvík kom og las fyrir þau og spjallaði á ensku. Fyrir þá sem áhuga hafa á að lesa meira um verkefnið má sjá heimasíðu þess hér.

Dagurinn í dag var sá fyrsti af þeim dögum sem við vinnum sérstaklega með verkefnið. Næstkomandi fimmtudag verður unnið með Rúmeníu, síðan er það Tyrkland, svo Pólland og lokst Búlgaría.

Ef að einhver hér í bæ lumar á einhverskonar munum frá þessum löndum, bókum, fánum eða öðru því sem við gætum nýtt okkur í verkefninu væri gaman að heyra frá þeim.

                     Kveðja frá Krílakoti