Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er Krílakot samstarfsaðili í Comeniusar skólasamstarfsverkefni. Þessa vikuna eru þær Arna, deildarstjóri á Skakkalandi og Steinunn, deildarstjóri á Skýjaborg, í Vratza í Búlgaríu. Þar hitta þær samstarfsfélaga okkar, þ.e. fulltrúa hinna skólanna sem taka þátt í verkefninu, en þeir eru frá Tyrklandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Englandi. Meðferðis höfðu þær stöllur fyrsta verkefnið í samstarfinu, en það eru dvd-diskar handa hverri þjóð, en á diskunum er upptaka héðan af Krílakoti og dagur í lífi eins nemanda. En það var hann Oddur á Skakkalandi og fjölskylda hans sem ljáðu okkur hönd við það verkefni. Svo verður spennandi fyrir okkur að sjá upptökurnar frá hinum löndunum. Einnig höfðu þær meðferðis hina ýmsu kynningarbæklinga héðan úr Dalvíkurbyggð. Þannig að það má með sanni segja að hér sé ekki einungis um skólaverkefni að ræða heldur einnig landkynningu. Seinna í haust fara þær svo til Póllands og svo er von á hópnum hingað til okkar í janúar