Mikið hefur verið um að vera hjá okkur í þessari viku. Jólaföndur var á öllum deildum og gaman var að sjá hversu margir foreldrar sáu sér fært um að koma og einnig voru nokkrar ömmur sem komu og áttu góða stund hér hjá okkur. Og stundum var vart hægt að sjá hvor nutu sín betur, foreldrarnir eða börnin.
Í næstu viku munu börnin á Hólakoti og Skakkalandi (2ja og 3ja ára börnin) fara í boði foreldrafélagsins í kaffihúsaferð niður í Berg, en í fyrra lukkaðist þessi ferð með ágætum. Þær kaffihúsakonur eiga von á okkur og hafa fengið upplýsingar um hinar ýmsu sérþarfir er varða ofnæmi og óþol. Þetta verður eflaust spennandi fyrir börnin og á næsta ári kemur svo röðin að börnunum sem nú eru á Skýjaborg.
Annars er það að frétta frá okkur að hlaupabólan er að hefja 3 umferð hjá okkur og á ég nú von á því að þetta fari nú að verða búið hjá okkur því þau eru orðin ansi mörg börnin okkar sem hafa fengið hana.