Á fundi stjórnar Félags leikskólakennara þann 8. október 2008 voru til umræðu efnahagsmál þjóðarinnar og hugsanleg áhrif á líðan leikskólabarna og foreldra þeirra.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt:
Í ljósi atburða síðustu daga er ljóst að fjárhagur margra heimila getur versnað næstu misseri. Í þannig aðstæðum er mjög mikilvægt að ungum börnum sé eins og kostur er haldið utan við umræður um áhyggjur og kvíða vegna fjárhagsvanda og þess gætt að líf þeirra fari sem minnst úr skorðum.
Stjórn FL hvetur því menntamálaráðuneyti, sveitarfélög og aðra rekstraraðila leikskóla til þess að tryggja að börn hafi fullan og óskertan aðgang að leikskólanámi þrátt fyrir tímabundna fjárhagslega erfiðleika. Leikskólastjórar eru hvattir til að vera á varðbergi og grípa inn í ef grunur er um að foreldrar neyðist til að segja upp leikskóladvöl sökum fjárskorts.
Stjórn FL beinir því einnig til skólastjóra og kennara í leikskólum að sjá til þess að leikskólinn sé griðastaður barna þar sem þau geta dvalið við leik og nám og notið leikskólasamfélagsins án þess að þurfa að hlusta á umræður eða verða fyrir áreiti af nokkru tagi vegna þeirra óvenjulegu aðstæðna sem blasa við í íslensku efnahagslífi.
Stöndum saman um að virða rétt barna til að njóta áhyggjulaus bernsku sinnar.
Reykjavík, 8. október 2008
F.h. stjórnar Félags leikskólakennara
Björg Bjarnadóttir formaður