Aldursblöndun o.fl

Aldursblöndun o.fl

Líkt og foreldrar hafa orðið varir við nú í haust er aldurssamsetning barnahópsins önnur en verið hefur. Áður voru 4-5 ára börnin á Hólakoti, 2-3 ára á Skakkalandi og 1-2 ára á Skýjaborg. Nú í haust eru öll 1 árs börn á Skýjaborg, en á Hólakoti og Skakkalandi eru á báðum deildum 2-4 ára börn. Það að blanda aldurshópum saman á eldri deildunum hefur ýmsa kosti í för með sér. Blandaður aldurshópur skapar börnum fjölbreyttari námstækifæri heldur en þegar um hreinan aldurshóp er að ræða; þau fá fleiri tækifæri á mismunandi þátttöku og hlutverkum innan hópsins. Hin yngri fá tækifæri til að læra af þeim eldri, samsama sig þeim og leita eftir stuðningi þeirra. Þau eldri læra á því að kenna, setja sig í spor annarra og fleiri fá tækifæri til að upplifa sig sem leiðtoga. Rannsóknir benda til að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska og svo virðist sem forysta og félagslega ábyrg hegðun eflist við þær aðstæður; svo sem að hjálpast að, deila með sér, skiptast á, taka tillit til annarra, segja satt o.s.frv.


Flest börn eru mislangt komin á mismunandi þroskasviðum, t.a.m. getur barn verið komið langt í hreyfiþroska en skemur í félagsþroska. Í aldursblönduðum barnahópi er fjölbreyttari hegðun viðurkennd og börn sem einhverra hluta vegna eru skemur á veg komin á einu þroskasviði en öðru geta átt auðveldara uppdráttar innan um sér yngri börn sem getur styrkt sjálfsmynd þess og námsáhuga. Og eins og fyrr segir er aldursblöndun ekki einungis til góða fyrir yngri börnin, blandaður aldurshópur leiðir til félagsmynsturs sem styrkir ábyrgð, forystu og félagslega færni.


Dagsskipulag Hólakots og Skakkalands er þannig uppsett að börnin hafa mörg tækifæri yfir daginn til að leika sér þvert á deildir. Í vali, sem er þriðjudaga til fimmtudaga, geta börnin valið inn á 5 sameiginleg svæði; smiðju (listasvæði), appelsínugula svæði (hreyfing og hlutverkaleikur), bláa svæði (einingakubbar), græna svæði (hlutverkaleikur) og útiveru, auk þess að velja inn á sína deild. Í hópastarfi sem einnig er þriðjudaga til fimmtudaga eru elstu börnin saman í einum hópi sem kallast Íþróttahópur, hinir árgangarnir tveir vinna síðan náið saman á milli deildanna.


Elstu börnin fara 4 sinnum í viku í Stig af stigi, þ.e. stelpurnar tvisvar og strákarnir tvisvar og þau eru einnig saman í einum hópi í samveru eftir hádegismat. Á mánudögum og föstudögum fara öll börnin í sameiginlega útiveru fyrir hádegi þar sem þau eru í frjálsum leik. Á föstudögum eru síðan öll börnin saman á söngfundi eftir morgunverð.


Það er misjafnt hvort börnin fara út eftir hádegi eða eru í frjálsum leik inni. Suma daga fer hluti barnanna út, meðan önnur eru í rólegum leik inni og fer það eftir áhuga barnanna sjálfra. Á þessum tíma þegar hluti barnanna eru farin heim og þau yngstu sofa gefst kennurunum dýrmætt tækifæri til að sinna þeim sem vaka enn betur; veita þeim góða umönnun og örvun í gegnum leik, ýmist úti eða inni. Þó ég tali um að það fari eftir áhuga barnanna hvort þau fari í leik úti eða inni er það samt svo að ef þau hafa verið inni um morgunin þá fara þau út eftir hádegi. En þá daga sem þau fara út fyrir hádegi, geta þau samt sem áður farið út aftur eftir hádegi. Auk þess fara börnin stundum út í hópastarfi. Þannig að barn sem er allan daginn í leikskólanum fer 1-3 sinnum út yfir daginn.


Eins og ég hef rakið hér að framan hafa börn í hverjum árgangi (2005-2007) fjölmörg tækifæri til leiks og náms með jafnöldrum sínum, þrátt fyrir að um aldursblöndun sé að ræða. Og sem dæmi má nefna að barn í elsta árgangi (2005) sem er allan daginn í leikskólanum hefur tækifæri til að vera með jafnöldrum sínum í 5-6 klst. af 8 klst. Sama barninu gefast jafnframt fjölmörg tækifæri til að eiga samskipti við sér yngri börn og þroska með sér samkennd, umburðarlyndi og umhyggju.


Mjög misjafnt er hvernig skipulagi deilda er háttað í leikskólum. Sem dæmi má nefna að á Iðavelli á Akureyri er 1 árg. á deild, Naustatjörn á Akureyri eru 1-2 árg. á deild, Álfasteini í Hafnarfirði eru 3 árg. á deild auk yngstu barna deildar, á Stekkjarási í Hafnarfirði eru 4 árg. á deild auk ungbarna deilda.
Ef þið foreldrar hafið spurningar um aldursblöndun, leik og nám barnanna eða hvað annað sem snertir veru þeirra hér á Krílakoti, er ykkur velkomið að koma og eiga spjall við mig.


Dagbjört