Aðlögun á enda

Aðlögun á enda

Nú má segja að sú aðlögun sem hófst í haust sé á enda, því þó aðlögun með foreldrum taki ekki nema nokkra daga tekur það börnin mismunandi langan tíma að verða alveg örugg í nýju umhverfi. Í dag eru börnin orðin öruggari með sig, búin að kynnast innbyrðis, kynnast starfsfólki og skólanum sjálfum. Þó er það þannig að það eru alltaf einstaklingar sem ná ekki þessu öryggi fyrr en upp úr áramótum.

Eins og foreldrar vita fórum við aðra leið þetta árið hvað varðar aðlögun barnanna, þ.e. við nýttum okkur svo kallaða þátttökuaðlögun. En hún felst í því að annað foreldri barnsins er með því fyrstu 3 dagana í leikskólanum og sinnir barninu þann tíma. Með því ná foreldrar einnig tækifæri til að kynnast starfsfólkinu betur og því hvernig dagurinn gengur fyrir sig. Og hefur það sýnt sig að með þessum hætti verða foreldrar öruggari og þá um leið verða börnin örugg.

Í samtölum mínum við kennara og deildarstjóra hefur komið fram að þessi aðferð við aðlögun hefur reynst okkur vel hér á Krílakoti og hafa foreldrar einnig lýst yfir ánægju sinni með aðferðina. Aðferðin er ættuð frá Svíþjóð, en þó nokkrir skólar hér á landi hafa tileinkað sér og útfært aðferðina eða aðlagað hana að þörfin síns skóla. Þeir sem áhuga hafa að lesa meira um þátttökuaðlögun þá má benda á að Kristín Dýrfjörð hefur ritað ýmsar greinar um hana og hér má lesa ýmsan fróðleik á heimasíðu SARE samtakanna.