Töfrabækurnar eru brúðuleikhússería fyrir yngstu börnin þar sem unnið er með þjóðsögur. Þegar bókin opnast breytist hún í leikmynd fyrir söguna og persónurnar spretta upp sem brúður.
Fyrir ári síðan frumsýndu Umskiptingar fyrsta ævintýrið í Töfrabókaseríunni. Það var Sagan af Gýpu og hefur hún síðan flakkað vítt og breitt um landið. Nú er komið að sögunni um Fóu og Fóu Feykirófu en hún fjallar um það þegar Fóa Feykirófa rekur Fóu úr hlýja, fallega hellinum sínum og sest þar sjálf að. Fóa veit ekki hvað skal til bragðs taka en vinir hennar, lambið, kindin, sauðurinn og hrúturinn bjóða öll fram hjálp sína að ná honum til baka. Það gengur þó ekki áfallalaust fyrir sig.
Leikstjóri sýningarinnar er Fanney Valsdóttir en hún sá jafnframt um gerð búninga. Leikarar eru Margrét Sverrisdóttir og María Pálsdóttir. Margrét sá jafnframt um gerð leikmyndar og brúðugerð. Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason eru höfundar tónlistar og framleiðandi er Jenný Lára Arnórsdóttir.
Töfrabókin, Fóa og Fóa Feykirófa, verður frumsýnd 6. október kl. 15:00 í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit og verða sýningar þar á sunnudögum í október. Eftir sýningar verður boðið upp á föndur þar sem meðal annars verður hægt að sjá hvernig hægt er að gera sína eigin Fóu-grímu. Þá verður hægt að fá sér kaffi og kruðerí á meðan börnin föndra.
Frekari upplýsingar má finna á samfélagsmiðlum Umkskiptinga:
Facebook: www.facebook.com/umskiptingar
Instagram: www.instagram.com/umskiptingar.leikhopur/
Miðasala fer fram á https://tix.is/.../18144/tofrab-kurnar-foa-og-foa-feykirofa/
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00