Á bókasafni Dalvíkurbyggðar er sérstök barnadeild þar sem hægt er að nálgast bæði nýjar bækur og gamlar. Þar eru harðspjaldabækur fyrir yngstu börnin, lestrarbækur fyrir byrjendur, stórkostlegar ævintýrasögur, ljóðabækur og fleira. Í barnahorninu er einnig að finna afþreyingarefni af öðru tagi eins og púsl, spil, kubba og bangsa svo dæmi séu tekin. Í barnahorninu er aðstaða fyrir börn og fullorðna til að koma sér vel fyrir, hvort sem það er í sófanum eða í stól við borð. Hægt er að nálgast pappír og liti hjá starfsmanni til að teikna og lita og hægt er að fá að hengja upp listaverk á vegg í barnahorninu.
Öll börn í Dalvíkurbyggð fá bókasafnskort sér að kostnaðarlausu gegn ábyrgð foreldra og forráðamanna. Hægt er að fá barnabækur leigðar í 30 daga í senn auk þess sem boðið er upp á hljóðbækur og myndbandsdiska sem henta börnum.
Reglulega er boðið upp á fjölbreytta viðburði og samverustundir á bókasafninu. Samverustundirnar henta fólki á öllum aldri og lagt verður upp með að bjóða upp á fjölbreytta samsuðu lestrar, leikja, hreyfingar og sköpunar.
Síðastliðin ár hefur bókasafnið tekið þátt í lestrarátaki sem kallast sumarlestur skólabarna og er allur gangur á því hvernig því er háttað hverju sinni. Verkefni miðar að því að efla lestur barna og veita þeim aðhald við lestur yfir sumartímann.
Leikskólinn Krílakot heimsækir bókasafnið vikulega og eru heimsóknirnar fyrir löngu orðinn fastur liður af morgunstarfi safnsins. Tekið er á móti tveimur hópum á mánudagsmorgnum og einum á þriðjudagsmorgnum.
Starfsmenn bókasafnsins hafa tekið saman fjölmargar fræðslubækur sem eru ætlaðar fyrir foreldra til að lesa með börnunum. Bækurnar fjalla ýmist um lærdóm, samskipti, allar tilfinningar og jákvæða líkamsímynd. Bækurnar má finna í hillu í barnahorninu.
Bókasafnið er með ágætt úrval af barnabókum á ensku og pólsku en eitt af markmiðum bókasafnsins er að auka úrval af barnabókum á öðrum tungumálum en íslensku. Hér má finna sögur um Bangsímon og Múmínálfana á norðurlandamálum og jafnvel bækur á spænsku.