Gleðilegt nýtt ár kæru skjalavinir! Árið 2023 var mikil tilfinningarússíbani fyrir Héraðsskjalasafnið og starfsmenn þess. Í maí fengum við þær óraunverulegu fregnir að ráðist hafði verið á netþjóna Dalvíkurbyggðar og allt tekið gíslingu. Með þrotlausri vinnu og æðruleysi hjá tölvuumsjónamanni Dalvíkurbyggðar, náðist að endurheimta öll skjöl sem tilheyrðu stofnunum Dalvíkurbyggðar.
Því miður fór það þó svo að ekki náðist að endurheimta ljósmyndasöfn stofnananna, þar á meðal ljósmyndasafn Héraðsskjalasafnsins. Það safn innihélt um 15 þúsund greindar ljósmyndir og svipað magn af ógreindum. Á bak við þessar myndir lá þrotlaus vinna núverandi og fyrrum starfsmanna ásamt 10 ára greiningavinnu frá kærkomnum sjálfboðaliðum í ljósmyndahóp Héraðsskjalasafnsins. Eins og gefur að skilja var þetta töluvert áfall og erum við satt að segja ennþá að jafna okkur.
En með hækkandi sól og jákvæðni að vopni höldum við áfram, við eigum sem betur fer allar frummyndir. Síðan þessi vá dundi yfir, hefur verið skannaður inn töluverður fjöldi ljósmynda og mun sú vinna halda áfram næstu árin.
þann 24. janúar næstkomandi ætlum við að kalla saman ljósmyndahópinn okkar á ný og byrja að greina þær myndir sem komnar eru í rafrænt form. Hópurinn er opinn öllum og hvetjum við ykkur að kíkja til okkar í kjallara ráðhússins alla miðvikudaga frá klukkan 10-11:30. Þetta er frábær félagsskapur, skemmtilegur og fræðandi!
Ég vil nýta tækifærið og þakka ljósmyndahópnum okkar fyrir óeigingjarna vinnu sína í greiningu ljósmynda undanfarin ár. Þessi hópur hefur hjálpað okkur að varðveita söguna og gefa myndunum líf. Það er ómetanlegt að hafa slíkan hóp sér við hlið í þeirri mikilvægu vinnu að varðveita sögu byggðarlagsins okkar og hlakka ég til að halda henni áfram með ykkur.
Björk Eldjárn Kristjánsdóttir
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4932
Opnunartími:
Þriðjud, miðvikud. og fimmtud. frá kl. 13:00-15:00.