Saga safnsins

Héraðsskjalasafn Svarfdæla

Safnið var stonfað 1982 en upphafið má í raun rekja til ársins 1958 en þá var fyrst hugað að heimildaöflun fyrir ritun Sögu Dalvíkur. Það kom fljótlega í ljós að gögn er vörðuðu Dalvík voru af skornum skammti á opinberum skjalasöfnum. Mikilvæg gögn höfðu einhverra hluta vegna ekki borist Héraðsskjalasafninu á Akureyri (sem þá var skilaskylt safn á þessu svæði) og má þar helst nefna gjörðabækur hreppsins frá árinu 1868 og önnur gögn í svipuðum dúr. Nefndin sem fór fyrir heimildaöflun kom því fljótlega auga á nauðsyn stórfelldrar söfnunar í byggðarlaginu, þá aðallega vegna skráningar á sögunni.

Farið var þá leið að ganga hús úr húsi og var efnið ýmist tekið upp á hljóðrit eða skrifað upp eftir mönnum og minni. Í fyrstu ársskýslu Héraðsskjalasafnsins segir að margar stórkostlegar heimildir hafi þar komið fram í dagsljósið – heimildir sem annars hefðu aldrei hlotið þann sess að fá skráningu í opinberu safni ef þeim hefði ekki verið safnað með þessum hætti.

Þegar fyrsta bindi Sögu Dalvíkur kom út árið 1978 var auðvitað búið að safna slíku umfangi af heimildum að tæpast var hægt að leggja það á nokkurn mann að geyma það allt í eigin heimahúsi. Gögnin þurftu því augljóslega á samastað að halda, stað þar sem varðveislugildi þeirra væri tryggt til frambúðar. Það kemur fram í fyrstu ársskýslu safnsins að margir hafi látið efni af hendi með þeim skilyrðum að það varðveittist í Svardælskri byggð. Það má því leiða líkur að því að heimildamönnum og afhendingaraðillum hafi verið annt um meðhöndlun afhendinganna. Það var ekki síst Kristmundur Bjarnason, fræðimaður og höfundur Sögu Dalvíkur sem hvatti þá sem að söfnuninni stóðu að fara þá leið að stofnsetja héraðsskjalasafn á Dalvík og þannig varðveita og bjarga öllu söfnuðu efni frá glötun. Þannig yrði auk þess aðgengi heimamanna að efninu tryggt í þeirra eigin heimabyggð til frambúðar. Í sömu árskýslu segir að þegar sú ákvörðun hafi verið fomlega tekin – þ.e. að stofna héraðsskjalasafn á Dalvík, hafi fólk látið hin ótrúlegustu skjöl úr fórum sínum og afhent safninu eftir stofnun þess.

Skjöl eru varðveitt af margvíslegum ástæðum. Þau geta haft lagalegt, fjárhagslegt eða sögulegt gildi og geta auk þess sýnt hvernig og af hverju ákvarðanir voru teknar og með hvaða hætti þær voru framkvæmdar. Skjöl hafa ekki síst að geyma upplýsingar um réttindi einstaklinga eða líf þeirra. Eins og segir í lögum um opinber skjalasöfn ber héraðsskjalasafni að: „tryggja myndun, vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi“. Eins og lesa má þekur þetta ansi breitt svið.
Einkaskjalasöfn geyma ómetanlegar upplýsingar um sögu og mannlíf og veita okkur fjölbreyttari mynd af fortíðinni. Hugmyndin sem við höfðum af samfélagi liðinna tíma væri ansi einhæf ef við hefðum aðeins við opinber skjöl að styðjast.  

Meginhlutverk héraðsskjalasafna er að safna og varðveita gögn er varðar svæðið sem það þjónustar. Héraðsskjalasafn Svarfdæla, eins og önnur héraðsskjalasöfn, safnar, varðveitir og afgreiðir skjöl bæjar og sveitastjórna, stofnanna og fyrirtækja auk persónulegra einkaskjala frá einstaklingum og félagasamtökum. Það má því segja að héraðsskjalasöfn varðveiti sögu sveitafélaga heima í héraði og gegni þess vegna margvíslegu menningar- og stjórnsýslulegu hlutverki sem m.a. er skilgreint í lögum.


Björk Hólm Þorsteinsdóttir
Forstöðumaður safna Dalvíkurbyggðar