Við kynnum með stolti nýja heimasíðu fyrir Héraðsskjalasafn Svarfdæla. Lengi hefur verið unnið að því að gera aðgengilega heimasíðu þar sem hægt er að finna helstu upplýsingar hvað varðar ýmsa praktíska þætti, t.d. afhendingu ganga fyrir einka- og opinbera aðila. Heimasíðan verður einnig notuð til að miðla fjölbreyttum fróðleik sem tengist safninu, ljósmyndumm og öðru efni sem varðveitt er á safninu.
Hvað má finna á heimasíðunni ?
Almennt um starfsemi safnsins líkt og sögu safnsins, aðstaða, safnkost o.fl. má finna undir "Safnið" í vefftrénu.
Skjalavarsla
Undir skjalavörslu má finna gagnlegar upplýsingar sem tengjast almennri skjalavörslu og afhendingu gagna á safnið fyrir bæði einka- og opinbera aðila. Þeir sem huga að því að skila inn gögnum á safnið geta því kynnt sér hvað ber að hafa í huga áður en afhent er.
Ljósmyndasafn
Verið er að vinna að því að útbúa sérstakan vef fyrir ljósmyndasafnið í heild sinni, þar sem safnið er umfangsmikið og er fremur plássmikið til að vera á þessari heimasíðu. Þó er hægt að sjá brot af því stóra safni undir ljósmyndasöfn, sem sýna húsakynni fyrir og eftir Dalvíkurskjálftann 1934 og líf- og störf fyrri kynslóða í Dalvíkurbyggð.
Það fylgir því mikil vinna að greina ljósmyndir og erum við svo lánsöm að hafa hóp af áhugafólki sem hefur aðstoðað okkur við að greina fjöldan allan af ljósmynd sem borist hafa safninu. Við sendum þeim mikið þakklæti fyrir ómetanleg störf og hlökkum til að byrja aftur í haust.
Við munum einnig vilja fá aðstoð ykkar lesendur góðir, með að greina ljósmyndir og munum við vera dugleg að birta inn myndir inní “þekkir þú myndina” þegar við lendum í vandræðum.
Miðlun
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur. Mikilvægt er að gera þá frábæru vinnu sýnilega sem að hópur ljóðaunnenda í Dalvíkurbyggð stóðu að 2013, þar sem þeir söfnuðu kvæðum og lausavísum sem upprunnar eru eða á einhvern hátt tengdar Dalvíkurbyggð og ekki hafa verið gefnar út á prenti og komu á kvæðavefinn Bragi.
kvæða- og vísnasafnið fékk nafnið Haraldur sem er til heiðurs Haraldi Zophoníassyni verkamanni og skáldi á Dalvík en hann orti óteljandi lausavísur og talsvert af ljóðum og var meðal samferðamanna álitinn „talandi skáld“.
Vinnan er þó ekki búin, því enn má finna vísur og kvæði sem þurfa að komast upp úr skúffum og á þennan vef og mun safnið kalla saman áhugahóp hvað þetta varðar, þegar tími gefst.
Heimild mánaðarins
Í hverjum mánuði mun starfsmaður héraðsskjalasafnsins setja inn heimild mánaðarins sem tengist safninu og/eða er varðveitt þar. Þennan mánuðinn lítum við 40 ár aftur í tímann og sjáum hvað var að gerast í samfélaginu út frá augum Héraðsfréttablaðsins Norðurslóð sem er varðveitt í heild sinni á safninu og einnig á Tímarit.is.
Norræni skjaladagurinn
Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti en árið 2001 sameinuðust þau um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember. Árið 2006 var ákveðið að hafa sameiginlegt þema þriðja hvert ár og skyldi þemað ákveðið og kynnt á norrænum skjaladögum árið áður. Það fyrirkomulag hefur haldist að mestu leyti síðan. Héraðsskjalasafn Svarfdæla hefur tekið þátt í Skjaladeginum undanfarin ár og sýnt hvaða gögn safnið varðveitir sem tengist þema dagsins hvert sinn. Það er mikilvægt að hafa svona dag þar sem söfn sameinast og vinna að einhverju sameiginlegu, það bæði gerir söfnin sýnilegri og um leið eykur áhuga á mikilvægi varðvörslu gagna.
Mjólkurflutningar í Svarfaðardal:
Við kynnum með stolti það viðamikla verkefni um Mjólkurflutninga sem unnið hefur verið að um nokkurt skeið. Haustið 2020 var gefið út kver um Mjólkurflutningar í Svarfaðardal sem er samstarfsverkefni Byggðasafnsins Hvols og Héraðsskjalasafns Svarfdæla. Höfundur sérritsins er Solveig Brynja Grétarsdóttir, íslenskufræðingur og kennari að mennt. Brynja hefur sinnt verkefninu af mikilli alúð og áhuga og hefur m.a. nýtt sér gjörðabækur, dagbækur, ljósmyndir og viðtöl til þess að draga upp raunsæja og skýra mynd af aðstæðum og sögum mjólkurflutningamanna og aðstandenda þeirra.
Lesa má kverið í heild sinni á heimasíðunni sem og ítarefni um mjólkurflutninga, fleiri myndir og annað tengt efni. Það er von okkar allra að lesendur verði margs fróðari eftir lesturinn.
Í lokin bendum við á Listaverkasafn Dalvíkur, en það heyrir undir Héraðsskjalasafnið. Þar má finna hin ýmsu málverk sem máluð hafa verið af listamönnum frá Dalvíkurbyggð. Stærsti hluti safnsins kemur frá listamanninum Jóni Stefáni Brimari Sigurjónssyni frá Dalvík (1928-1980), betur þekktur sem Brimar, en hann málaði yfir þúsund málverk sem bæði eru í eigu listaverkasafnsins, en einnig í einkaeigu. Hægt er að sjá myndir af þeim verkum sem Héraðsskjalasafnið varðveitir, en við bendum einnig á þessa glæsilegu heimasíðu sem gerð var í tilefni 90 ára afmæli Brimars 2018. Í kjölfarið var gefin út bók og sett upp stór málverkasýning í Gamla skóla sama ár. Á heimasíðunni má sjá hátt í 1000 verk sem Brimar hefur málað í gegnum tíðina, en hann var frábær listamaður með einstakan stíl.
Við vonum að þessi heimasíða muni bæði vera til gagns og gamans og munum við sjá til þess að henni verði haldið við og hún gerð sem aðgengilegust.
Það er mikilvægt hlutverk að varðveita heimildir fyrri ára á viðeigandi hátt og vekja athygli á mikilvægi Héraðsskjalasafna, bæði til þess að fræða komandi kynslóðir en einnig til að minna okkur á um hvaðan við komum og hver við erum sem samfélag.
Björk Eldjárn Kristjánsdóttir.
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4932
Opnunartími:
Þriðjud, miðvikud. og fimmtud. frá kl. 13:00-15:00.