Nú á dögunum barst okkur afhending á Héraðsskjalasafnið. Um er að ræða gögn sem tengjast útibúi Kaupfélags Eyfirðinga á Dalvík (ÚKEAD) sem fundust í geymslu í kaupfélagshúsinu þar sem áður voru skrifstofur KEA. Í téðri afhendingu má m.a. finna bréfaskipti til og frá kaupfélagsstjóra frá árunum 1939-1963 sem varpa ljósi á verslunarsögu byggðarinnar og samskiptaleiðir milli kaupfélags og neytenda þess. Efni bréfanna eru ýmist pantanir á vörum eða bókhaldsmál, en það má þó sjá rauðan þráð í bréfunum. Ákveðin virðing og vinsemd lýsir sér í bréfaskiptunum og er kaupfélagsstjórinn oftar en ekki ávarpaður sem "vinur". Það er frekar þekkt í sögusögnum að kaupmaðurinn hafi verið óvinsæll áður fyrr, þá sérstaklega á tímum einokunarverslunarinnar. Það virðist vera önnur saga með kaupfélagið á Dalvík ef marka má bréfaskiptin, þó ekki sé hægt að alhæfa einungis út frá því. En það er greinilegt á þessum skrifum að íbúar Dalvíkurbyggðar hafi borið virðingu fyrir kaupfélaginu og það örlar líka á stolti. Hugsanlegu stolti yfir því að vera sjálfstæð og vera með kaupfélag sem þjónaði öllu því sem þurfti og að vera ekki háð stærri bæjum. Líklega hefur það mikið með hve þétt setin byggðin var, einlæg og persónuleg bréfin virðast vera, líkt og sjá má hér að neðan.
Bréf ritað til Stefáns Hallgrímssonar (1897-1968) þáverandi kaupfélagsstjóra
skrifað af Þorsteini Baldvinssyni frá Böggvisstöðum (1876-1968).
ÚKEAD
Útibúið var formlega stofnað á árunum 1919-1920 þótt nokkur starfsemi, líkt og slátrun og vörusala á vegum félagsins hafi hafist nokkru fyrr. Kaupfélagið keypti land sunnan Lágar úr Brimneslandi og í þeim húsum var útibú kaupfélagsins opnað. Með tímanum varð útibúið stærsta og elsta verslun félagsins utan Akureyrar, þar sem bæði var bílaverkstæði, sláturhús og fiskvinnslustöð og á hennar vegum var einnig rekin fiskverkun á Hjalteyri. Táknmynd KEA á Dalvík er verslunarhúsið í hjarta Dalvíkur, sem var reist á sjötta áratugnum og tekið að mestu í notkun árið 1953 og hét þá Svarfdælabúð. Þar voru m.a. matvöru-, vefnaðarvöru-, bygginga- og nýlenduvöruverslun, sem og skrifstofur og vörugeymslur. Kaupfélagshúsið þjónaði veigamikið hlutverk fyrir byggðarlagið og uppfyllti nær allt sem íbúar þurftu á að halda í hinu daglega lífi heima fyrir og við atvinnu.
Málnlingavörudeildin sem staðsett var vestan við kaupfélagshúsið.
Frímann Sigurðsson og Aðalsteinn Óskarsson.
Matvörudeildin. Rósa Kristinsdóttir stendur bakvið afgreiðsluborðið.
Vefnaðardeildin. Verslunardaman er Svanbjörg Jónsdóttir.
Gamla kaupfélagshúsið og við hlið þess er gamla sláturhúsið.
"Nýja" kaupfélagshúsið sem reis við hlið gamla kaupfélagsins og tekið í notkun 1953.
Seinna var gamla kaupfélagið rifið og byggt við nýja kaupfélagið og þar opnaði verslun sem enn er notuð.
Seinna varð matvöruverslunin Svarfdælabúð rekin af Samkaup og er enn í dag. Þá færðist byggingavörudeildin undir Húsasmiðjuna, en nú er þar byggingavöruverslunin Víkurkaup rekin af heimamönnum. Rekstur Frystihúss KEA og útgerð skipanna Björgúlfs EA og Björgvins EA færðist síðar yfir til Samherja hf.
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4932
Opnunartími:
Þriðjud, miðvikud. og fimmtud. frá kl. 13:00-15:00.