Með hækkandi sól og nýkomnu sumri fylgja oft breytingar, hvort sem það sé úti í náttúrunni, heima hjá okkur eða innra með okkur sjálfum. Það er því ekki úr vegi að líta yfir vel heppnaðan vetur á bókasafninu.
Hér á bókasafninu hefur verið mikil endurskipurlags-vinna með tilheyrandi breytingum, bæði í geymslum og í útlánasal. Farið er af stað grisjunar-verkefni þar sem rýnt verður í safnkost sem ekki hefur farið í útlán í mörg ár og er því að taka pláss frá nýjum safnkostum. Helst viljum þó að þessir gamli safnkostur öðlist nýtt líf, framhaldslíf, og munum við halda áfram að stuðla að því með bókasölu þar sem gestum gefst tækifæri að gera kjarakaup fyrir lítinn sem engan pening. Sem dæmi væri tilvalið að gefa klassískar bókmenntir í útskriftar- og fermingargjöf!
Einnig var fundin upp önnur lausn fyrir eldri bækur sem enn eru skráðar hjá okkur á safninu. Nú er komin uppstillingin „Gamalt og gott úr geymslunni“ í útlánarsal og munu þar birtast öðru hvoru nýjar(gamlar) sígildar sögur sem ritaðar hafa verið í gegnum aldirnar. Í undirgöngum bókasafnsins má svo finna enn fleiri eldri bækur sem hafa að geyma ómetanlegar heimildir um horfinn heim. Þar má finna fræðibækur, ævisögur, skáldsögur og barnabækur sem gætu vakið upp nostalgíu hjá mörgum lesendum.
Í framhaldi af uppstillingum ber að nefna glerskápinn okkar góða, sem staðsettur er inni á bókasafninu. Þar, eins og áður, verða settar upp litlar sýningar sem hafa ákveðið þema sem starfsmenn bókasafnsins taka að sér að útbúa. Bent er þó á að ef áhugasamir hafa eitthvað til að sýna sem myndi henta í sýningaskápinn, hvetjum við ykkur hafa samband við Björk Eldjárn, forstöðumann safna.
Í glerskápnum nú í mars-apríl mátti sjá uppsetningu sem tileinkuð var heilsu og mátti þar sjá bækur og texta sem snerta hina ýmsu fleti heilsunnar, bæði andlega og líkamlega.
Nú hefur komið upp ný uppstilling sem tileinkuð er sumrinu, nánar tiltekið okkar ástkæru farfuglum sem loks eru komnir til landsins með boð um sumar og söng. Það er okkar hæfileikaríka Jolanta Piotrowska sem sá um að hanna og setja upp þessar skemmtilegu sýningar. Málverkin eru eftir Jolöntu sjálfa, en fugla-stytturnar eru fengnar í láni frá Hjördísi Jónsdóttur.
Fleiri breytingar á uppstillingum hafa orðið á safninu og má þar nefna breytt aðgengi í barnahorni safnsins. Nú má sjá að hornið er orðið rýmra og hefur unglingadeildin okkar stækkað eftir að myndasögur safnsins fengu nýjan stað. Þar geta börn og ungmenni Dalvíkurbyggðar fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig bættust við fleiri spennandi barna- og unglingabækur á pólsku og má þar helst nefna bækurnar um Dagbók Kidda klaufa og Kaftein Ofurbrók!
Bóka- og héraðskjalasafn vinna afar náið saman, til dæmis þegar kemur að uppsetningu sýninga. Í kringum öskudaginn setti Anna Sigríður, starfsmaður safna, upp ljósmynda-sýningu í glerkassa safnsins sem staðsettur er í kjallara ráðhússins. Um var að ræða svipmyndir af öskudegi á Dalvík í gegnum árin og mátti þar sjá marga frumlega og skemmtilega karaktera. Myndirnar eru úr ljósmyndasafni Guðmundar Inga Jónatanssonar, en hann rak prentsmiðjuna Víkurprent í 30 ár og gaf út bæjarblaðið Bæjarpóstinn frá árinu 1985 til 2004. Héraðskjalasafnið varðveitir nú þetta stóra myndasafn, sem hefur að geyma ómetanlegar heimildir um sögu Dalvíkurbyggðar.
Nú er komin upp ný sýning í glerskápnum sem tileinkuð er 90 ára afmæli Sundskála Svarfdæla, en hann var vígður á sumardeginum fyrsta 25. apríl 1929 og á sér sérstæða og ríka menningarsögu hér í byggð. Á safninu eru til hinu ýmsu gögn frá Sundskálanum og má þar nefna myndir, gjörðabók og sundskrá frá vígsluárinu 1929. Við hvetjum ykkur til að kíkja niður í kjallara ráðhússins og skoða sýninguna og heimsækja skjalasafnið í leiðinni.
Eins og sjá má varðveitir safnið fjöldan allan af ljósmyndum sem tengjast menningarsögu Dalvíkurbyggðar á einn eða annan hátt. Ljósmyndirnar eru ómetanlegar heimildir um fortíð okkar byggðalags og má m.a. finna myndir af íbúum, byggingum og hinu ýmsu viðburðum/atburðum sem til hafa orðið hér gegnum aldirnar. Þó eru til margar myndir sem erfitt getur verið að greina og þekkja vegna aldurs eða annarra ástæðna. Við erum svo heppin hér á safninu að myndast hefur félagskapur af áhugafólki, sem taka það að sér að greina ljósmyndir og þannig leggja sitt að mörkum að skrá menningarsögu okkar. Ljósmyndahópurinn, eins og hann er kallaður, hefur hisst í þónokkurt skeið á miðvikudögum frá kl. 10-12. Síðasti hittingurinn fyrir sumarfrí var á miðvikudaginn síðastliðinn og var vel heppnuðum vetri fagnað með dýrindis brauðtertu frá Basalt bistro. Ljósmyndahópurinn byrjar svo aftur í september og hvetjum við alla áhugasama að mæta!
Aðrar fréttir af bókasafninu eru þær að ávallt er nóg um að vera, við fáum nýjar bækur reglulega og höldum hina ýmsu viðburði tengda starfseminni.
Má þar nefna færnismiðjur sem bókasafnið í samstarfi við Rökstóla hefur haldið síðan í haust 2018. Í ár hafa nú þegar verið tvær færnismiðjur undir stjórn Lenku (umsjónarkonu færnismiðjunnar og stofnanda Rökstóla) þar sem hún fer fjölbreyttar og margvíslegar leiðir að miðlun þekkingar. Í fyrstu smiðjunni var farið stuttlega yfir uppbyggingu smiðjunnar þar sem þátttakendum gafst kostur á að upplifa rýmið og kynnast vinnuaðferðum smiðjunnar. Einnig var fólk hvatt til þess að koma með hugmyndir og óskir um hvað hægt væri að leggja áherslu á, í komandi færnissmiðjum.
Önnur smiðjan var tileinkuð súrdegi og brauðgerð. Fjallað var um hinar ýmsu hliðar súrdeigsins og gæða brauð bakstur, allt frá hugmynd til framkvæmdar. Við fengum í heimsókn til okkar Mathias, sem hefur mikla ástríðu fyrir súrdeigi. Þar sagði hann frá kynnum sínu við súrdeigsgerð og hvernig hann lét drauma sína verða að veruleika með því að opna fyrsta súrdeigsbrauð-bakaríið hér í byggð með eiginkonu sinni Ellu Völu.
Þetta voru, eins og alltaf, afar vel heppnaðar smiðjur og verða næstu tvær færnissmiðjur í haust. Fylgist með!
Hinn árlegi Svarfdælski mars var haldinn hátíðlegur þann 29-30 mars. Samhliða þeirri hátíð er ávalt haldið heimsmeistaramót í Brús, þar sem heimsmeistarar, áhugamenn og byrjendur hittast og taka í spil. Hér á bókasafninu hefur myndast sú hefð að halda æfingarbúðir fyrir byrjendur í Brús. Þá fáum við til okkar heimsmeistara og vana spilara til að koma og leiðbeina byrjendum í gegnum spilið. Þetta hefur vakið mikla lukku og mun þessi hefð halda áfram, jafnvel oftar en bara að þessu tilefni!
Aðrir viðburðir sem bókasafnið hefur haldið utan um, eru okkar sígildu hádegisfyrirlestrar. Nú í ár hafa verið tveir vel heppnaðir fyrirlestrar. Í fyrsta fyrirlestrinum fengum við í heimsókn til okkar Trausta Þórisson, bónda á Hofsá í Svarfaðardal. Hann deildi spennandi ferðasögu sinni þar sem hann ferðaðist með Bændaferðum til Ísrael á síðasta ári, nánar tiltekið Tel Aviv, í þeim tilgangi að kynnast búskaparháttum þar eystra. Fyrirlesturinn var stútfullur af fróðleik og skemmtilegum sögum sem Tausti deildi með áhorfendum í máli og myndum.
Við fengum einnig til okkar Sölva Tryggvason, en hann gaf nýverið út sína fyrstu bók „Á eigin skinni“. Sölvi hefur lengi verið þekktur sem virkur fjölmiðlamaður hér á landi, en fyrir áratug hrundi heilsa hans bæði líkamlega og andlega. Eftir þrautagöngu milli lækna og annarra sérfræðinga, endalausar rannsóknir og lyfjameðferðir án þess að hann fengi bót meina sinna, ákvað hann að taka málin í eigin hendur. Síðan hefur Sölvi fetað allar mögulegar slóðir í leit að betri heilsu og auknum lífsgæðum. Sölvi sagði áhorfendum frá hinu ýmsu leiðum og ferðalögum sem hann fór í leit af betri heilsu og líðan.
Báðir fyrirlestarnir voru vel sóttir, enda afar fræðandi og áhugaverðir. Við þökkum fyrirlesurum enn og aftur kærlega fyrir komuna og fyrir að deila með okkur ferðasögum sínum.
Næsti fyrirlestur verður þann 24. maí næstkomandi. Við höldum áfram með ferðalaga-þemað, en í þetta sinn fáum við í heimsókn frækna göngumenn úr heimabyggð, sem afrekuðu að ganga hreppamörkin í Svarfaðardal. Gönguna kalla þeir „Gangan langa“ og munu göngumennirnir segja frá ferð sinni í máli og myndum. Enn fremur verður sýnd fyrsta stiklan af væntanlegri heimildarmynd um tjéða göngu.
Göngumenn og fyrirlesarar eru: Tjarnarbræðurnir Árni, Þórarinn, Kristján E, Hjörleifur Hjartarsynir, Magnús Magnússon frá Svæði og Jón Bjarki Hjálmarsson frá Steindyrum. Ekki láta þetta framhjá ykkur fara!
Eins og fyrr segir þá er sumarið ný gengið í garð, sem þýðir að bókasafnið er að setja sig í sumagírinn með tilkomandi hefðum og viðburðum sem til hafa orðið á hjá okkur. Má þar nefna: Hjólið í lag fyrir sumardag, Sumarlestur, Bókaskjóður, Bókasala, Leikjadagur og fleira spennandi.
Nýjir sumarstarfsmenn hafa hafið störf og munu þau Stefán Hrafn Stefánsson og Silja Dröfn Jónsdóttir standa vaktina hjá okkur í sumar.
Stefán mun starfa hjá okkur á bóka- og héraðskjalasafninu og Silja mun starfa á upplýsingamiðstöðinni. Upplýsingamiðstöðin opnar formlega hjá okkur þann 1. júní, og mun þaðan streyma ýmsar gagnlegar og fróðlegar upplýsingar frá fésbókarsíðunni í allt sumar.
Við bjóðum þau Silju Dröfn og Stefán Hafn hjartanlega velkomin og sendum ykkur um leið sólríkar sumarkveðjur.
Hlökkum til komandi samverustunda með ykkur á bókasafninu.