Lánsbækur, starfsemin og covid-19

Lánsbækur, starfsemin og covid-19

Kæru bókasafnsvinir

Það er óhætt að segja að við séum að lifa óvenjulega tíma – í ljósi heimsútbreiðslu covid-19 er ljóst að það þarf að endurskoða margt og eru söfnin þar hvergi undanskilin.

En hvað þýðir þetta fyrir okkur? Hvernig verður starfseminni háttað? Hvaða aðgerðum munum við beita? Getur maður smitast af bókum… og svo framvegis og framvegis – allt eru þetta spurningar sem einhver gæti verið að velta fyrir sér.

En hér ætlum við að reyna að svara nokkrum spurningum í stuttu og hnitmiðuðu máli:

  • Bókasafni verður haldið opnu eins lengi og mögulegt er. Forsendur fyrir opnun eru metnar frá degi til dags og gætu því breyst með stuttum fyrirvara. 
  • Byggðasafni og Héraðsskjalasafni verður lokað fyrir gestum. Hérðasskjalasafn afgreiðir beiðnir í gegnum símtöl og tölvusamskipti eins og hægt er. Byggðasafn sinnir innra starfi og miðlar safnkosti og efni á internetinu eins og kostur er.
  • Starfsfólki er ráðlagt að miða við 2 metra fjarlægð frá utanaðkomandi/gestkomandi ef hægt er. Gestir eru beðnir um að virða þetta og lágmarka þann tíma sem þeir verja á safninu.
  • Helstu snertifletir safns eru þrifnir oft á dag með sápu og spritti, starfsmenn klæðast hönskum og þrífa og spritta allar bækur sem koma inn áður en þær fara aftur upp í hillu.
  • Líkurnar á því að smitast af covid-19 af lánsbókum bókasafnsins eru svipaðar og af öðrum yfirborðsflötum. Það er ekki með fullu vitað hversu lengi veiran lifir á pappír en rannsóknir hafa sýnt lífslíkur frá 4 tímum upp í 24 tíma. Til þess að ganga úr skugga um að smit berist ekki með bókum höfum við gert ráðstafanir þess efnis að engin bók fer aftur í útlán fyrr en a.m.k. 24 tímum eftir að henni er skilað. Þar að auki eru allar bækur þrifnar og sótthreinsaðar þegar þeim er skilað eins og áður sagði.
  • Við biðjum gesti um að skila bókum í tösku sem staðsett er á afgreiðsluborðinu og starfsmenn taka þær síðan þaðan í hönskum, þrífa, sóttreynsa, og setja í hillu þangað til þær eru tilbúnar til að fara aftur í útlán.
  • Við biðjum að sjálfsögðu lánþega líka um að huga vel að hreinlæti og þvo hendur vel áður en þeir meðhöndla bækur frá bókasafninu.
  • Leikföng, litir og perlur hafa verið fjarlægð úr barnahorni um óákveðinn tíma. 
  • Tímarit og dagblöð hafa verið fjarlægð úr almennum rýmum fyrir gesti að fletta á staðnum. Í staðinn eru tímarit lánuð út og fara þá í gegnum áður tilgreinda hreinsun að lánstíma loknum.
  • Bókasafnið mun bjóða upp á nokkrar útfærslur af annarskonar þjónustu – t.d. verður hægt að panta bækur í gegnum símtal (460-4930) eða skilaboð á facebook og bókum síðan keyrt út til gesta einu sinni á dag. Sjá frekari upplýsingar um þá þjónustu HÉR.
  • Bókasafnið auglýsir og kynnir notkun á rafbókasafni sem stendur öllum til boða og kemur með hugmyndir og uppástungur fyrir fólk að nýta til afþreyingar á þessum undarlegu tímum – Við hvetjum alla til að fylgjast vel með bókasafni Dalvíkurbyggðar á samfélagsmiðlum þar sem hér bætist eitthvað nýtt við daglega (FACEBOOKINSTAGRAM).
  • Allir viðburðir á vegum safnanna falla niður vegna samkomubanns og farið verður hægt af stað að því loknu. Það sama gildir um viðburði á vegum Berg Menningarhúss.
  • Allt hópastarf, s.s. leik- og skólaheimsóknir falla niður, a.m.k. fram yfir páska og hugsanlega lengur. Ákvarðanir um framhaldið verða teknar í samstarfi við fræðslufulltrúa þegar þar að kemur.
  • Ljósmyndagreining á Héraðsskjalasafni Svarfdæla fellur niður um óákveðinn tíma.
  • Basalt café+bisto hefur tekið þá ákvörðun að loka í Bergi tímabundið. Þau ætla í staðinn að bjóða upp á take away bakka frá Norður og gilda klippikortin á Basalt gilda þar. Á meðan á þessu stendur munum við á bókasafninu hjálpa til og bjóða þeim sem vilja upp á kaffi og mola í samstarfi við Basalt.  
  • Eins og áður sagði þá breytast hlutirnir hratt og hugsanlega þurfum við að herða aðgerðir enn frekar en vonandi létta á öðrum. Við, eins og aðrar stofnanir í sveitafélaginu, munum reyna okkar besta til að halda íbúum sem best upplýstum á meðan á öllu þessu stendur.

Að lokum viljum við biðla til ykkar, gesta – vina og fjölskyldu að vera heiðarleg gagnvart heilsufari ykkar þegar þið komið í Menningarhúsið eða takið bækur að láni. Húsið er opið öllum og við viljum ekki setja takmarkanir á það hverjir geta notað þjónustuna okkar á meðan við getum enn boðið upp á hana. Á meðan við getum haft opið þá eru allir velkomnir og við treystum ykkur til að gera það sem þið getið til að halda því þannig sem lengst. Þetta krefst þess að allir geri sitt besta, sinni ítrasta hreinlæti og komi ekki á staðinn ef þeir hafa grun um smit eða finna fyrir einhverjum einkennum.

Við ítrekum að við bjóðum nú upp á Bókaskutl sem gerir bæjarbúum kleift að panta bækur og afþreyingarefni og fá það heimsent. Við viljum nefnilega endilega halda áfram að bjóða upp á úrvals þjónustu þó við þurfum að breyta útfærsluatriðum.  

 

Ekki gleyma að fylgjast með okkur á facebook og Instagram en þar kemur mun daglega birtast eitthvað til að létta lundina – það er nefnilega mjög mikilvægt á þessum tímum… að anda, brosa og hlægja <3