Nú líður að hátíð ljóss og friðar, klementína og nýrra bóka!
Við höfum reynt að kaupa sem flestar nýjar bækur enda er það eitt af markmiðum okkar að allir íbúar Dalvíkurbyggðar, ungir sem aldir, hafi greiðan aðgang að nýjum bókum óhað efnahag - við minnum á að allir íbúar Dalvíkurbyggðar geta fengið lánþegaskírteini sér að kostnaðarlausu. Ef þið, íbúar kærir, hafið einhverjar sérstakar óskir um bókakaup má endilega koma þeim á framfæri við Björk Hólm.
Það er svo sannarlega margt spennandi á boðstólnum og ekki seinna vænna að sníða sér leslista fyrir komandi jólahátíð - við vitum það öll að það er fátt huggulegra en að liggja, saddur/södd uppi í sófa yfir eftir enn eina steikina og lesa í góðri bók. Við á bókasafninu mælum með því að þið látið það eftir ykkur.
Við erum svo heppnin að fá til okkar tvo hæfileikaríka rithöfunda til að kynna sitt framlag til jólabókaflóðsins í lok nóvember og byrjun desember. Þetta eru þær Vilborg Davíðsdóttir og Ásta Rún Valgerðardóttir.
Vilborg mun vera með bókakynningu á föstudaginn 24. nóvember nk. klukkan 12.00-13.00 í fyrirlestrarsal Menningarhússins Bergs - þar ætlar hún að segja frá og hugsanlega lesa úr nýútkominni bók sinni - Blóðug jörð. Frekari upplýsingar er að finna hér - auk þess sem hægt er að fylgjast með á facebook með því að smella hér.
Ástu Rún Valgerðardóttur ættu margir að kannast við enda sleit hún barnskónum hér á Dalvíkinni draumabláu. Ásta gaf nýverið út bókina Fjölskyldan mín í samstarfi við Láru Garðarsdóttur sem hannaði myndirnar. Frekari upplýsingar um bókina og viðburðinn má nálgast hér. Ásta ætlar að lesa og segja frá bók sinni laugardaginn 2. desember milli 14.00-15.00 í barnahorni bókasafnsins.
Við bendum að sjálfsögðu á Bókatíðindi fyrir frekari upplýsingar um hverja bók fyrir sig en hér að neðan má sjá þær bækur sem hafa bæst við bókakost Bókasafns Dalvíkurbyggðar á síðustu dögum og vikum.
Þið finnið allar nýjustu bækur bókasafnsins í myndasafninu hér að neðan - hvaða bækur ætlar þú að lesa um jólin?