Þó það viðri ekki þannig þá segir dagatalið okkur að sumarið komið. Með sumrinu tekur við annar taktur í samfélagi manna og má það sama segja um bókasafn Dalvíkurbyggðar. Rósa og Jolanta eru komnar í sumarfrí og vonum við svo sannarlega að þær njóti sumarsins til hins ítrasta. Héraðsskjalasafn Svarfdæla verður ekki með fasta opnunartíma í sumar en allir geta þó haft samband við Björk Hólm eða afgreiðsluna á bókasafninu ef þeir vilja nálgast safnkost eða upplýsingar. Leikskólaheimsóknir eru komnar í sumarfrí og það er ljósmyndahópurinn sem hittist á Héraðsskjalasafni Svarfdæla líka. Hugleiðsluhádegin koma þó til með að halda áfram í sumar.
Á meðan Rósa og Jolanta „sóla“ sig í rigningunni höfum við fengið til liðs við okkur tvo nýja sumarstarfsmenn, þau Björk Eldjárn Kristjánsdóttur og Jón Emil Gentry.
Bjarkirnar eru þá orðnar tvær en vonandi náum við að halda nafnarugling í lágmarki. Jón Emil mun, líkt og síðasta ár, sjá um Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem starfsett hefur verið í andyrinu á Bergi, fyrir framan bókasafnið. Mikil aukning hefur verið í komu ferðamanna síðustu misseri og er því miðstöð upplýsinga orðin nauðsynlegur þáttur í veittri þjónustu í Dalvíkurbyggð. Upplýsingamiðstöðin verður opin frá 08.00-18.00 virka daga og frá 13.00-18.00 á laugardögum. Á sunnudögum er lokað í öllu húsinu.
Upplýsingamiðstöðin er með facebook - endilega finnið okkur þar og fylgist með!
Slóðin er: facebook.com/upplysingamidstod - og þar notumst við við myllumerkið #infodalvik
Dagskrá júnímánaðar verður ekki af verri endanum á bókasafninu, enda alltaf mikið fjör þar á bæ. Má þar helst nefna:
8. júní, fimmtudagur –„Hjólið í lag fyrir sumardag!“ kl. 15.00-17.00
Nú þegar sólardögum fer fjölgandi má sjá börn og fullorðna nýta sér reiðhjólið sem fararskjóta í auknum mæli. Bókasafnið, í samstarfi við hinn þaulreynda hjólasérfræðing Jón Halldórsson, býður öllum sem vilja upp á aðstoð við að koma hjólinu í stand fyrir sumarið. Hægt verður að smyrja keðjuna, pumpa í dekkinn og skrúbba af því vetrarskítinn. Gestum er bent á að koma með hjólin á sólpallinn fyrir aftan Berg.
24. júní, laugardagur – „Fljúgðu hærra“ –Flugdrekasmiðja kl. 13.30-14.30
Bókasafnið býður ungum sem öldnum að spreyta sig í flugdrekagerð. Hér verður einblínt á einfalda smíði svo sem flestir geti tekið þátt. Einfaldur efniviður verður á staðnum en öllum er frjálst að leggja til efni, skraut og annað sem gæti lífgað upp á flugdrekana. Hlökkum til að sjá ykkur!
Hugleiðsluhádegin verða síðan á sínum stað eins og áður segir á fimmtudögum kl. 12.15-12.30
Nú nálgast Þjóðhátíðardagur Íslendinga og að því tilefni setti Björk Eldjárn upp nýja sýningu í sýningarskáp bókasafnsins. Á sýningunni má sjá ljósmyndir frá 17. Júní hátíðarhöldum fyrri tíma, muni tengda deginum og sitthvað fleira. Við hvetjum alla til að líta við og kynna sér málið betur.
Fyrir skömmu voru Bókaverðlaun barnanna veitt fyrir árið 2017. Á landsvísu unnu bækurnar Pabbi Prófessor eftir Gunnar Helgason og Dagbók Kidda Klaufa: hundaheppni eftir Jeff Kinney. Bókasafn Dalvíkurbyggðar og Dalvíkurskóla stóðu fyrir vali á bók ársins meðal barna í Dalvíkurbyggð og voru það bækurnar Pabbi prófessor og Henry og hetjurnar sem voru jafnar í 1. sæti. Að kosningu lokinni var einn heppinn lesandi valinn sem fékk að verðlaunum bókina umræddu Pabbi prófessor. Sá heppni reyndist vera Ísar Hjalti Hafþórsson og voru honum að óvörum afhent verðlaunin á skólatíma í Dalvíkurskóla.
Í sumar mun bókasafnið bjóða upp á svokallaðan sumarlestur einhverntíman á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst. Í sumarlestri felst samvinna milli bókasafnsins og foreldra sem vilja hvetja börnin sín til lesturs í sumar. Samvinnan felst í því að gerður verður samningur á milli bókasafnsins og barnsins/foreldra um fjölda bóka sem lesa þarf. Bækur eru síðan valdar í sameiningu sem hæfa lestrarfærni og áhuga hvers og eins.
Sumarlestur er góð leið til að viðhalda og efla lestrarfærni sem börnin hafa náð í vetur og gott tækifæri til að brjóta upp daglega lestrarrútínu sem fylgir náminu. Það er um að gera að búa til aðra umgjörð um sumarlesturinn til að fá tilbreytinguna. Bókasafn Dalvíkurbyggðar er með fjölbreitt úrval lesbóka á öllum erfiðleikastigum en það skiptir auðvitað mestu máli að allir krakkar fái lesbækur fyrir sitt hæfi.
Til að taka þátt í sumarlestrinum er skilyrði að barn og a.m.k. annað foreldri eða staðgengill foreldris (t.d. afi/amma/frænka/frændi) skrái sig hjá Björk Hólm á bókasafninu og fá þar afhent gögn ásamt því að útbúa svokallaðan„lestrarsamning“. Þegar bókum er skilað fyllir lesandinn út smá gagnrýni og að tímabilinu loknu fá allir lesendur viðurkenningarskjal. Að sumri loknu verða svo nöfn allra sem tóku þátt sett í pott og einn heppinn vinningshafi dreginn út sem hlýtur óvæntan glaðning.
Skráning er hafin og hafa fyrstu samningarnir núþegar verið undirritaðir! Þessir þrír lestrarhestar voru fyrstir að undirrita samninga um sumarlestur. Húrra fyrir þeim!
Um miðjan júní og út sumarið verður einnig hægt að nálgast svokallaðar Bókaskjóður en það eru hálfgerðir óvissupokar sem innihalda lesbók um ákveðið efni, einhverja fræðibók um sama efni, leikfang sem tengist efninu og ýmis tilmæli sem ættu að hrista upp í lestrinum. Lesbókina ætti barnið sjálft að geta lesið en fræðibókin er ætluð foreldrum til að lesa með barninu.
Það er okkar von að Bókaskjóðurnar komi til með að hvetja til enn frekari lesturs, sköpunar og fróðleiksfýsnar. Þar að auki er það okkar von að verkefnið hvetji báða/alla foreldra til þess að lesa meira með börnunum sínum og ræða við þau um innihald lestursins. Nánari upplýsinga um Bókaskjóðurnar er að vænta von bráðar. Fylgist spennt með!
Við höfum þetta ekki lengra að sinni en minnum á að Bókasafn Dalvíkurbyggðar er á samfélagsmiðlum – finnið okkur á facebook og instagram og fylgist með daglegu lífi bókasafnsins innan um bækur og gleði.
facebook.com/bokasafndalvikurbyggdar
Instagram: bokasafndalvikurbyggdar - myllumerkið (hasstag) #bokabyggd
Sjáumst hress og kát á bókasafninu í sumar!
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00