Við vorum að skrá inn nokkrar nýjar bækur í dag.
Bókin Þögult óp er bók mánaðarins hjá Pennanum Eymundsson en hún er eftir höfundinn Angelu Marsons. Bókinni er lýst sem margslunginni og æsispennandi og segir frá lögreglukonunni Kim Stone. Bækur Marsons hafa slegið í gegn í bretlandi og hafa komið út á meira en 20 tungumálum. Nú er sögupersónan Kim Stone komin til Íslands og ekki er allt sem sýnist. Nú er bara spurning hver verður fyrst/ur að næla sér í þessa spennandi bók.
Af öðrum nýjum bókum má kynna sérstaklega bókina Rútan en hún er eftir höfundinn Eugenia Almeida sem er sögð bregða upp ljóðrænni mynd af tíma kúgunar og einræðis í Argentínu og ógnvekjandi afleiðingum þeirrar múgsefjunar sem átti sér þar stað.
Litadýrð dýraríkisins er eftir Huginn Þór Grétarsson en þar ræðir um risastóra myndabók með hundruðum mynda af litríkum dýrum. Öll heimsins dýr eru flokkuð niður, ekki eftir tegund, heldur eftir lit. Bókin er sannkallað sjónarspil fyrir augu barna sem og fullorðinna.
Á stefnuskránni hefur verið að kaupa inn nýjar kiljur á ensku og fékk ein að fljóta með að þessu sinni. Hún er reyndar ekki nýútkomin en hún er ný á safninu, allavega upp á enska tungu. Bókin heitir One with you og er eftir hina geysivinsælu Sylvia Day.
Síðast en ekki síst eru á myndinni bækurnar Hollt nesti og Til varnar réttindum konunnar. Hinn fyrr nefnda er eftir Rósu Guðbjartsdóttur en bókin gefur lesendum hugmyndir af næringaríkum smáréttum og millibitum. Sú síðari, en þó ekki síðri, er eftir Mary Wollenstonecraft og má í stuttu máli lýsa innihaldi hennar sem tilraun Wollenstonecraft til að rökstyðja stöðu konunnar sem skynsemisveru á byltingartímum. Bókin er gefin af Lærdómsriti Bókmenntafélagsins og kom út seint á síðasta ári.
Önnur bók sem er ný en ekki á meðfylgjandi ljósmynd er bókin Löggan eftir hinn sívinsæla Jo Nesbø - það var einhver svo fljótur að næla henni í útlán að hún náðist ekki einu sinni á mynd með hinum.
Verið öll velkomin að næla ykkur í nýjustu bækurnar. Fyrstir koma, fyrstir fá.
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00