Alltaf berst talsvert af skjölum frá einstaklingum á skjalasafnið. Í sumar hafa borist einstaklega verðmæt skjalasöfn og þar af 3 afhendingar frá því í ágúst.
Í byrjun ágúst kom Gunnlaugur Snævarr fyrrv. lögregluþjónn í Reykjavík og afhenti safninu fyrir hönd móður sinnar Jónu G. Snævarr ræðusafn föður síns Sr. Stefáns Snævarr. Afhending ræðusafnsins núna er í tilefni af 100 ára ártíð sr. Stefáns, en hann var fæddur 22. mars 1914. Safnið er fyrst og fremst líkræður og minningarorð um einstaklinga og sem slíkt ómetanleg heimild.
Þann 27. ágúst kom Erna Kristjánsdóttir færandi hendi með 18 handskrifaðar bækur sveitarblaðsins Dagrenning frá árunum 1932 - 1950. Handskrifuðu sveitarblöðin eru ótrúlega góðar samtímaheimildir og á Skjalasafninu er nú að finna mjög heilstætt og gott safn slíkra blaða. Dagrenning var gefið út af Ungmennafélaginu Skíða. Trúlega er þetta heildarsafn Dagrenningar, en þó gæti vantað eitt hefti. Auk dagrenningar færði Erna safninu fundargerðarbók UMF. Skíða og merkilega bók "Brautarfélagsins" þar sem vinnuframlag bænda í Skíða- og Svarfaðardal til vegaframkvæmda í dalnum var fært til bókar.
Þann 5. september færði Stefán Halldórsson fyrrv. kennari í Reykjavík, safninu vísnasafn föður síns Halldórs Jónssonar á Gili. Halldór Jónsson var fæddur og uppalinn í Skíðadal, en var lengi kenndur við Velli. Halldór var þekktur hagyrðingur og eru t.d. margar vísur eftir hann í sveitarblöðunum Árbliki og Dagrenningu. Vísnasafnið er á lausum blöðum og má telja víst að vísur og ljóð séu mörg þúsund sem bíða nú frágangs og birtingar í vísnasafninu Haraldi.
Afhendingar sem þessar eru ómetanlegar og kærkomnar og viljum við hér með þakka fyrir traustið sem safninu er sýnt með þessum höfðinglegu gjöfum.
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00