Með harmi tilkynnum við að frá og með morgundeginum, þriðjudeginum 24. mars verður lokað fyrir gesti á Bókasafni Dalvíkurbyggðar.
Menningarhúsið Berg verður því með öllu lokað frá og með þriðjudeginum 24 mars og óvíst hvenær við opnum aftur. Opnun og allar breytingar verða rækilega auglýstar á heimasíðum og samfélagsmiðlum.
Þessi ákvörðun er tekin í ljósi hertra takmarkana á samkomur þar sem söfn – eins og bókasöfn, falla undir lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu. Við tökum að sjálfsögðu engar óþarfa áhættur og fylgjum fyrirmælum heilbrigðisráðherra og sóttvarnarlæknis í einu og öllu.
Við ætlum áfram að bjóða upp á bókaskutl – Ath. að það gæti, eins og allt annað, breyst með litlum fyrirvara og við gerum bara eins vel og við getum á hverjum tíma fyrir sig.
Hægt verður að panta bækur í síma: 460-4930, í gegnum netfangið utlan@dalvikurbyggd.is eða í gegnum skilaboð á facebook (hér). Í pöntun þarf að koma fram kennitala og heimilisfang sem bókin á að sendast á. Best er að fólk sé búið að kanna hvort bókin sé í hillu áður en það pantar – það er gert á leitir.is. Allar bækur eru meðhöndlaðar með hönskum, þrifnar og sótthreinsaðar áður en þær fara í útlán.
Bækur verða keyrðar út á þriðjudögum og fimmtudögum – settar í bréfalúgu eða hengdar á hurðahún. Við biðjum alla sem panta bækur að virða 2 metra regluna þegar starfsmaður kemur með bækur og ekki sækja bækurnar fyrr en starfsmaðurinn er farinn aftur – þetta verður einungis svokölluð “heimsendingarþjónusta”, engin samskipti innifalin. Við viljum t.d. ekki fá bækur til að skila - á þessu tímabili verður ekki tekið við bókum úr útláni.
Bækurnar eru á ábyrgð lánþega á meðan á útláni stendur og það er á hans ábyrgð að koma henni aftur á bókasafnið þegar við opnum aftur fyrir bókaskil. Að því sögðu þá fellum við niður allar sektir á meðan á þessu ástandi stendur og biðjum ykkur í staðinn að passa vel upp á allt lánsefni og skila því heilu þegar við förum aftur af stað.
Á tímum sem þessum fattar maður hversu mikilvægar bækur eru samfélaginu. Þetta eru sannarlega erfiðir tímar en með því að standa saman, fylgja fyrirmælum og fara frekar "of varlega en hitt" þá komumst við vonandi heil í gegnum storminn. Við vonum að þessi þjónusta geti létt einhverjum lundina og hlökkum strax til samverustunda með ykkur í raunheimum þegar allt er yfirstaðið.
Ef einhverjar sérstakar spurningar vakna má alltaf hringja í mig (Björk Hólm) í síma 460-4931 og ég geri mitt besta til að þjónusta ykkur eins og ég get.
Lifið heil, sápið og sprittið - en fyrst og fremst verið heima eins mikið og þið getið <3
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00