Nú líður að lokum þorra og við tekur góan sem samkvæmt gamla norræna tímatalinu telst fimmti mánuður vetrar. Það hefur verið mikið um að vera á bókasafninu á nýju ári og áður en lengra líður á árið langar okkur að gera því örlítil skil í nokkrum orðum og myndum.
Helst er það í fréttum að Bókasafn Dalvíkur er nú stolt aðildarsafn að Rafbókasafninu! Sumir gætu þá spurt sig, hvað er nú það? Jú Rafbókasafnið er bókasafn á vefnum þar sem finna má fjölda raf- og hljóðbóka af öllu tagi, fyrir alla aldurshópa. Í rafbókasafninu eru glæpir og ástir, ævintýri og ævisögur, myndasögur og bækur og innhverfa íhugun, byltingar, tísku og mataræði. Meginhluti efnisins er á ensku og í formi rafbóka, en hlutur hljóðbóka fer ört vaxandi, enda njóta þær sérlegra vinsælda. Vonir standa til að á þessu ári muni íslenskar raf- og hljóðbækur bætast í hópinn.
Rafbókasafnið er samstarfsverkefni Landskerfis Bókasafna hf. og Borgarbókasafns Reykjavíkur og hægt er að nálgast efnið í flestum tækjum svo sem í vafra í tölvum, spjaldtölvum og snjallsímum. Auk þess er efnið jafnframt aðgengilegt í gegnum sérstakt app, OverDrive sem finna má í App Store og Play Store.
Allar helstu leiðbeiningar um hvernig eigi að nota rafbókasafnið má finna á heimasíðu bókasafnsins eða með því að þrýsta á þennan hlekk: Leiðbeiningar. Enn frekari upplýsingar má síðan finna á vef Borgarbókasafnsins (hér) og vefslóð rafbókasafnsins: rafbokasafnid.is
Leikskólaheimsóknir hafa verið á sínum stað það sem af er ári og hafa allir hóparnir unnið með skrímslaþema þar sem lesnar eru skrímslasögur og þau síðan beðin um að teikna sitt eigið skrímsli. Skrímsli fylgja engum útlitsstöðlum og geta verið allskonar, lítil, stór, feit, ferköntuð, með 1 auga eða 10, í öllum regnbogans litum og þess vegna eru þau frábær efniviður til opinna umræða og fræðslu enda skilar það sér í teikningum barnanna. Skrímsli Dalvíkurbyggðar geta foreldrar og áhugasamir skoðað í barnahorni bókasafnsins. Í leikskólaheimsóknum reynum við iðulega að bregða á leik og flétta saman leiki, hreyfingu, lestur og skemmtun ásamt því að skoða og velta vöngum yfir listasýningu hvers mánaðar í Menningarhúsinu Bergi. Það getur verið einstaklega gaman að heyra skoðanir ungra snillinga á listinni og geta þau oft á tíðum opnað augu fullorðna fólksins fyrir möguleikum sem eru þeim huldir.
Einu sinni í mánuði er boðið upp á sögustundir á pólsku og lagt er upp með að þær séu fyrsta fimmtudag hvers mánaðar (nema að fyrsti komi upp á fimmtudegi – þá er það næsti þar á eftir). Það er hún Anna sem les fyrir hópinn og væri gaman ef þessi liður næði að festa sig í sessi á bókasafninu. Þátttaka mætti vera betri á þessum viðburðum en við vinnum nú í því að auglýsa stundirnar betur. Þið, kæru vinir megið endilega hjálpa okkur að breiða út boðskapinn! Sögustundirnar eru frábær leið fyrir pólskumælandi foreldra og forráðamenn að örva og styrkja málþroska og læsi. Á bókasafninu má auk þess finna gott úrval lesbóka á pólsku, bæði fyrir börn og fullorðna og leggjum við mikið upp úr því að byggja upp pólskan bókakost.
Biblioteka miejska w Dalviku zaprasza dzieci na czytanie polskich bajek, które odbywać się będzie raz lub dwa razy w miesiącu poczynając od listopada. Czytać będą na przemian Urszula Terechowicz Oleszko i Anna Wilicka, a spotkania odbywać się będą w kąciku dla dzieci naszej biblioteki. Zapraszamy do udziału dzieci wraz ze swoimi rodzicami i opiekunami, którzy opiekują się dziećmi i ponoszą za nie odpowiedzialność podczas trwania spotkania. Nasze spotkania są świetnym sposobem dla rodziców i opiekunów na wspieranie i wzmacnianie rozwoju umiejętności językowych a szczególnie umiejętności czytania u dzieci. Biblioteka oferuje szeroki wybór książek w języku polskim, zarówno dla dzieci jak i dla dorosłych. Zapraszamy i mamy nadzieję spotkać jak najwięcej z Was w naszych progach.
Foreldramorgnar hafa nú verið haldnir fjórum sinnum og verður sá fimmti næstkomandi föstudag, 16. febrúar kl. 10.20. Fram að þessu höfum við fengið Láru Bettý með skyndihjálp ungra barna, Ólínu Freysteinsdóttur með fjölskylduráðgjöf, Lilju Guðna með ungbarnanudd, Ösp Eldjárn með tónlistarstund og svo mun Lilja Guðnadóttir ljósmóðir koma á föstudaginn og ræða um brjóstagjöf og næringu barna. Foreldramorgnar eru hugsaðar sem samverustundir fyrir foreldra til að koma saman með börnin sín og njóta samvista með öðrum. Stefnt er að því að bjóða mánaðarlega upp á fróðlegar kynningar á efni sem tengist barneignum, uppeldi eða öðru sem getur verið nytsamlegt fyrir foreldra að kynna sér. Að samverustundinni lokinni er tilvalið að halda samtalinu áfram inni á bókasafni eða jafnvel fyrir framan á kaffihúsinu Basalt+bistro.
Í janúar hékk uppi ljósmyndasýning í sýningarsal Bergs frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla. Sýningin var styrkt af Menningarsjóði Dalvíkurbyggðar og mátti það líta ljósmyndir úr fórum Ragnheiðar Sigvaldadóttur og Júlíusar Kristjánssonar. Sýningamyndirnar voru valdar með það að leiðarljósi að þær sýndu eitthvað sem hefur breyst í tímans ráðs – hvort sem það er landslag, skipulag, verkhættir, fólk, fatnaður eða fararskjóti svo fátt eitt sé nefnt.
Í ljósmyndasafni Júlíusar og Ragnheiðar eru ljósmyndir eftir ýmsa ljósmyndara, marga þekkta úr byggðalaginu s.s. Jónas Hallgrímsson og Loft Baldvinsson en einnig eru ótal mannamyndir teknar á ljósmyndastofu í frumriti og eftirtöku. Ljósmyndirnar endurspegla mannlíf Dalvíkurbyggðar á síðustu öld en myndirnar eru allar teknar yfir meira en 100 ára tímabil.
Júlíus og Ragnheiður hafa bæði sett sitt mark á menningarlíf Dalvíkurbyggðar m.a. með stofnun Héraðsskjalasafns Svarfdæla, Byggðasafnsins Hvols og ritun Sögu Dalvíkur. Það má því með sanni segja að Dalvíkurbyggð eigi þeim mikið að þakka og safnastarf almennt í byggðinni.
Hádegisfyrirlestur janúarmánaðar var tileinkaður ljósmyndasýningunni og var fóru viðstaddir yfir ljósmyndirnar á stórum skjá, veltu vöngum og deildu sögum og þekkingu. Það var virkilega ánægjuleg stund. Næsti hádegisfyrirlestur verður næstkomandi föstudag, 16. febrúar kl. 12.15-13.00. Í hádegisfyrirlestri mánaðarins fáum við að kynnast nánar fjölbreyttri starfsemi Dalvíkurbyggðar. Fjölmörg störf eru unnin í Dalvíkurbyggð án þess að það sé alltaf hinum almenna bæjarbúa ljóst hvað í þeim felst. Í vetur verður m.a. leitast við að gefa innsýn í ólík störf sem unnin eru Dalvíkurbyggð og gefa þannig einstaklingum færi á því að segja öðrum frá því hvað felst í þeirra daglega starfi. Að þessu sinni fáum við kynningu frá Félagsþjónustunni og munu starfsmenn á sviðinu kynna starfið og segja frá sinni reynslu í starfi. Frábær leið til að kynna sér þjónustu i í nærumhverfinu sem margir þekkja ekki af eigin raun. Við hvetjum sem flesta til að koma, hlusta og spyrja spurninga.
Það má segja að allt sé á fullum gangi á Héraðsskjalasafni Svarfdæla. Á nýju ári bættist við nýr fastur starfsmaður og fögnum við því ákaft. Starfsmaðurinn er kannski ekki nýr en stöðuhlutfallið er það. Hér ræðir um Sigurlaugu Stefánsdóttur en hún mun hafa yfirumsjón með skráningu ljósmynda. Enn er mikið starf fyrir höndum í flokkun og skráningu ljósmynda en nýlega bættust við ljósmyndir frá starfstíð Norðurslóðar frá upphafi. Ljósmyndahópurinn vinnur sem áður ötult og óeigingjarnt starf á safninu og eru margir svo hollir vinnunni að þeir mæta utan hefðbundis hópastarfs og leggja inn auka vinnu. Við erum þeim innilega þakklát fyrir þetta starf. Á meðfylgjandi mynd má sjá nýjustu afhendinguna á Héraðsskjalasafn Svarfdæla en það eru gamlar sjóðs-, viðskipta-, víxil-, innheimtu-, dagbækur og fleira frá Sparisjóða Svardæla. Í þessum bókum liggur mikil og mikilvæg söguleg heimild um samfélagið okkar. Starfsmenn vinna nú að því að skrá bækurnar inn og ganga frá þeim með viðeigandi hætti.
Stefnt er að því að hefja nýtt verkefni með ljósmyndahópnum á næstu misserum sem vonandi mun þá enda með lokasýningu þar sem bæjarbúar geta fengið að sjá afrakstur vinnunar en það verður allt auglýst betur síðar.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að skella sér í hugleiðsluhádegi sem er alla fimmtudaga frá 12.15-12.30. Hugleiðsluhádegi er hugsað fyrir alla þá sem vilja stilla sig af, gefa sjálfum sér örfáar mínútur, finna innri frið og þjálfa hugann. Frekari upplýsingar um hugleiðslu og hugleiðsluhádegi á bókasafninu má finna hér
Að lokum viljum við hvetja fólk til að skoða nýja sýningu í sýningarskáp bókasafnsins en að þessu sinni er hún tileinkuð Bolludegi, Sprengidegi og Öskudegi. Margir geta eflaust fundið gamlar myndir af sér í öskudagsbúning en meðal annars eru til sýnis öskudagsmyndir frá Bæjarpóstinum þegar hann var og hét.
Starfsfólk bókasafnsins klæddi sig að sjálfsögðu upp í tilefni öskudagsins en að þessu sinni tóku þeir sér ásjónu þekktra sögupersóna úr barnabókmenntum. Þetta eru að sjálfsögðu þau Kuggur og Málfríður úr bókum Sigrúnar Eldjárn og svo ein vinsælasta ofurhetja bókasafnsins, Kafteinn Ofurbrók. Við fengum fjöldann allan af skemmtilegum heimsóknum og nutum þess að heyra skemmtilega krakka syngja hress lög.
Það er nóg framundan á bókasafninu og ekki seinna vænna en að byrja að undirbúa sig fyrir Svarfdælskan Mars sem verður haldinn hátíðlegur í lok marsmánaðar. Bókasafn Dalvíkurbyggðar mun bjóða upp á byrjendanámskeið í Brús og hafa einar færustu brús-spilakonur tekið að sér kennsluna. Allir ættu þá vonandi að geta tekið þátt í þátt þegar að alvörunni kemur.
Dagskrá marsmánaðar verður auglýst betur þegar nær líður en þangað til biðjum við ykkur að hugsa vel um ykkur, hafa gaman og vera dugleg að lesa.
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00