Aldrei lognmolla á Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Aldrei lognmolla á Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Í dag erum við að skrá inn nokkrar nýjar bækur af margvíslegum toga. Má þar nefna sakamálasögur eða „krimma“ eins og flestir tala um, ljúfar, fyndnar og hjartnæmar sögur, ljóðabækur, barnabækur, prjóna og útilífsbækur svo fátt eitt sé upptalið.Nýjar bækur

Bókaútgáfa hefur verið að aukast jafnt og þétt á vorin og jafnvel yfir hásumar en í fréttum stöðvar tvö þann 26. júní kom fram að bókaútgáfa er ekki bara að aukast heldur er hún jafnfram að verða fjölbreyttari. Fyrst voru það aðallega glæpasögur í kiljum sem komu út á þessum tíma en nú má segja að engar reglur séu ríkjandi á þessum árstíma. Íslenskir höfundar halda þó áfram að vera vinsælastir í kringum jólin.

Talið er að á tímabilinu janúar til ágúst séu gefnar út ca 1/3 af heildarfjölda útgefna bóka á ári. Í ár eru það í kringum 300 bækur. Við getum því gefið okkur það að íslendingar ætli sér að vera duglegir að lesa í sumar og bendir allt til þess að krakkarnir okkar í Dalvíkurbyggð ætli sér slíkt hið sama.

Það hefur verið gríðarlega góð skráning í Sumarlestur hér á bókasafninu en alls hafa 29 krakkar gert lestrarsamning við bókasafnið. Samningurinn felur í sér að lesandinn ákveður hversu margar bækur hann ætlar að lesa yfir sumartímann og gerir svo grein fyrir þeim á bókasafninu þegar bókunum er skilað. Allir lesendur fá síðan viðurkenningarskjal að lestrinum loknum og í lok sumars verður einn heppinn lesandi dreginn út sem fær smá verðlaun.

Sumarlestur getur skipt miklu máli fyrir lestrarþroska barna. Reglulegur lestur yfir sumartímann styrkir bæði orðaforða og þekkingu og tryggir það að börn dragist ekki aftur úr þegar skólinn byrjar á haustin. Margar rannsóknir hafa sýnt að börn sem lesa á sumrin mæta mun ferskari til leiks að hausti en þau sem hafa ekkert lesið í sumarfríinu. Talið er að þau börn sem lesa ekkert yfir sumartímann þurfi allt að 6-8 vikur í upprifjun og geti dregist aftur um allt að þrjá mánuði. Áhrif þess að lesa ekkert á sumrin geta því verið langvarandi.

Til þess að gera sumarlesturinn ennþá meira spennandi höfum við hér á Bókasafni Dalvíkurbyggðar útbúið svokallaðar Bókaskjóður. Núþegar höfum við útbúið fjórar skjóður með mismunandi þemum. Lesandinn veit ekki hvaða þema hann fær hverju sinni heldur velur hann númer og má síðan hafa skjóðuna í 10 daga. Í hverri Bókaskjóðu má þó finna: Lesbók sem lesandinn getur lesið skjálfur, lesbók sem lesandi les með foreldri eða forráðamanni, fræðibók sem foreldri eða forráðamaður les fyrir barnið, dót, lestrarleiðbeiningar og taulitir – taulitina á síðan að nota til að teikna mynd eða skrifa nafn sitt á pokann því hann virkar eins og hálfgerð gestabók. Við hvetjum alla til að koma á bókasafnið til að kynna sér málið betur.BókaskjóðurEyrún nældi sér í fyrstu Bókaskjóðuna

Júní viðburðirnir fóru vel fram og var vel mætt á bæði hjóladaginn og flugdrekasmiðjunna. Jón Halldórs stóð vaktina á hjóladeginum og aðstoðaði gesti og gangandi við að koma hjólinu í stand fyrir sumarið.

ungur nemur gamall temurJón Halldórs veitir ráðgjöfJón græjar málin

Í flugdrekasmiðjunni „fljúgðu hærra“ komu börn og fullorðnir saman og föndruðu einfalda flugdreka úr efnivið sem eflaust má finna á flestum heimilum. Okkur öllum til mikillar gleði fóru drekarnir flest allir á loft og dönsuðu fallega í vindinum.

Hressir krakkar í flugdrekasmiðjunniUngir sem aldnir hjálpast að

 Í glugganum í barnahorninu okkar má nú sjá það sem við kjósum að kalla Skuggabyggð. Björk Eldjárn valdi nokkur áberandi kennileiti á Dalvík og dró upp af þeim skuggamynd. Byggðin kemur virkilega skemmtilega út og mælum við með því að fólk komi við og líti á vel unnið verk.

Skuggabyggð

Á þriðjudaginn síðasta fengum við skemmtilega viðbót við starfsfólk safnsins en þá kom kanadíska stúlkan Caitlin Leila Oleson frá Ottowa til okkar í starfsþjálfun. Þjálfunin kemur til í gegnum Snorraverkefnið, en það er félagsstarf fyrir ungt fólk af íslenskum uppruna í N- Ameríku og vill kynnast Íslandi og menningu þess. Caitlin verður hjá okkur í tvær vikur og mun hún aðstoða í upplýsingamiðstöð og á bókasafninu. Hún hefur m.a. hafist handa við að þýða göngukort Dalvíkurbyggðar á frönsku og ýmsar aðrar upplýsingar er varða byggðarlagið. Við biðjum ykkur að taka vel á móti Caitlin.Caitlin Leila Oleson

 

Næst á dagksrá hjá okkur er Leikjadagur á bókasafninu þann 6. Júlí frá kl. 15.00-17.00. Caitlin ætlar að aðstoða okkur við skipulagningu og hugsanlega kenna okkur leiki frá Kanada. Leikjadagurinn er haldinn í samstarfi við íþróttamiðstöðina og fáum við ýmis leiktæki að láni frá þeim. Við stefnum á að vera úti á pallinum fyrir ofan Berg eða á græna fletinum þar aðeins fyrir ofan. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að fá gott veður en við biðjum alla að vera við öllu búnir og klæða sig eftir veðri. Börn og þátttakendur eru á ábyrgð foreldra og forráðamanna á meðan stundin varir en við hvetjum sem flesta fullorðna sérstaklega að koma með og taka þátt í fjörinu.

 

Að lokum minnum við á bókasafnið á öllum helstu samfélagsmiðlum og mælum við sérstaklega með nýjung á bókasafninu sem heitir Fössarafésbókin. Á hverjum föstudegi birtist skemmtilega samsett mynd af bókakápu sem mátuð er á lifandi manneskju.

Fylgið okkur allstaðar, á veraldarvef og raunheimum. Fössarafésbók

facebook.com/bokasafndalvikurbyggdar 

facebook.com/upplysingamidstod

Instagram: bokasafndalvikurbyggdar

Myllumerkin (hasstöggin) eru á sínum stað #bókabyggð, #infodalvik #fössarafésbók og fleira skemmtilegt sem okkur gæti dottið í hug.

 

Sjáumst alltaf hress og kát á bókasafninu.