Síðustu misseri hafa verið viðburðarík á Bókasafni Dalvíkurbyggðar sem endranær.
Hugleiðsluhádegin, sem haldin eru frá 12.15-12.30 á fimmtudögum hafa gengið vonum framar og sífellt fleiri ákveða að gefa sjálfum sér þessar 15 mínútur til að þjálfa hugann og efla jákvæðu orku. Við finnum fyrir miklu þakklæti frá þeim sem hafa verið að mæta og er auðséð að talsverð eftirspurn er eftir afþreyingu af þessu tagi á þessu svæði. Hugleiðsluhádegin verða á sínum stað í apríl og maí og í rauninni sjáum við enga ástæðu til annars en að halda okkar striki í sumar ef áhugi er fyrir hendi.
Við höfum nú komið fyrir körfu í setkrók bókasafnsins þar sem komnir eru nokkrir garnhnyklar sem hægt er að grípa í. Við erum enn að óska eftir svokölluðum afgöngum eða garni sem fólk hyggst ekki sjálft nýta. Allt garn sem er gefið er sett í þessa körfu, ásamt prjónum, og hugsunin er að fólk geti sest, prjónað nokkrar umferðir (nú eða heilt stykki) og úr verði allskonar lítil prjónastykki. Þessi stykki hyggjumst við svo flétta saman svo úr verði teppi. Þetta teppi mætti þá kalla hálfgert samvinnuteppi þar sem allir bæjarbúar fá tækifæri til að setja sína lykkju á verkið.
Við höfum auk þess komið upp borði og púsli og bjóðum þar gestum og gangandi að glíma við púsl af ólíku erfiðleikstigi. Við á bókasafninu viljum endilega gera það sem við getum til að skapa eftirsóknavert andrúmsloft sem er rólegt og nærandi og er púslið einn liður í því að skapa slíkt umhverfi.
Við gerum okkar allra besta við að bjóða ætíð upp á nýjustu fáanlegu bækurnar. Hér má sjá myndir af þeim bókum sem hafa komið nýjar inn á safnið síðustu þrjár vikur.
Ef þið hafið einhverjar sérstakar óskir má alltaf ræða þær við starfsmenn bókasafnsins og við munum að sjálfsögðu gera það sem við getum til að koma til móts við sem flesta. Eins er gott að hafa í huga að Bókasafn Dalvíkurbyggðar á í mjög góðu samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri og ef við eigum ekki einhverjar bækur er lítill vandi að óska eftir millisafnaláni frá Amtsbókasafninu.
Í mars stóð bókasafnið fyrir spila- og púsl skiptimarkaði og lukkaðist það með eindæmum vel. Við stefnum á að halda svipaða markaði nokkuð reglulega og vonandi náum við að bjóða upp á annan markað fyrir sumarið. Dagskrá aprílmánaðar inniheldur fasta viðburði eins og ljósmyndahópinn á Héraðsskjalasafninu, leikskólaheimsóknir og hugleiðsluhádegi en þar að auki munum við bjóða upp á svokallaða Ævintýrastund á laugardaginn 15. apríl frá 13.30-14.15. Ævintýrastund ætti að henta fólki á öllum aldri þó efnið verði sérstaklega valið með börn í huga. Rýnt verður í sögupersónur, hvernig hlutverk eða efni hefur breyst í gegnum tíðina og valin ævintýri lesin, bæði ný og gömul. Björk Hólm sér um ævintýrastundina en börnin eru áfram á ábyrgð foreldra eða forráðamanna á meðan á stundinni stendur.
Hádegisfyrirlesturinn sem var fyrirhugaður í mars féll því miður niður en í apríl verður hádegisfyrirlesturinn með örlítið breyttu sniði. Í stað hefðbundins hádegisfyrirlestur verður að þessu sinni sýnd stutt heimildarmynd um mann sem margir þekkja eflaust úr byggðarlaginu. Höfundur myndarinnar er Jón Bjarki Hjálmarsson frá Steindyrum en myndin heitir: Afi Mannsi. Jón Bjarki ætlar að segja stuttlega frá ferlinu á bak við tjöldin og ef til vill svara spurningum að sýningu lokinni ef tími gefst til.
Að lokum viljum við nefna að ný sýning er komin í sýningarskáp bókasafnsins. Eftir vægast sagt undarlegan vetur, hér á norðurhjara veraldar, vorum við komnar í svo mikið sumarskap að það smitaðist yfir í sýningarskápinn. Ef einhver þarf á sól og sumaryl að halda þá mælum við með því að fólk geri sér ferð á bókasafnið og skoði sýningarskápinn. Við erum þess fullvissar að boðskapur af þessu tagi hjálpi til við að létta lundina.
Hlökkum til að sjá ykkur á Bókasafni Dalvíkurbyggðar.
Bergi menningarhúsi | 620 Dalvík | Sími: 460-4930
Opnunartími:
Mán. - fös. 10:00-17:00
Lau. 13:00-16:00