Formleg skólasetning

Formleg skólasetning

Góðan dag, fyrir ykkur sem misstuð af skólasetningunni (og íspinnunum:)) föstudaginn 7. september kl. 12:30 má lesa setningarorð skólastjóra hér á eftir.

Skólasetning Árskógarskóla 5. september 2014

Gott fólk, við erum hér saman komin til þess að setja nýtt skólaár formlega eins og hefðin gerir ráð fyrir, látlaus athöfn utandyra þar sem allir eru velkomnir en ekki boðaðir sérstaklega. Hefðin er sú að skólasetning fari fram kringum 7. september en það er formlegur afmælisdagur skólans sem nýs leik- og grunnskóla er hann var settur fyrsta sinni 7. september 2012. Á sunnudaginn 7. september er því Árskógarskóli 2 ára og því ber að fagna.

Árskógarskóli hefur nú sitt þriðja starfsár og má segja að við séum komin á beinu brautina, en hvað merkir það?

Eitt af markmiðum nýs skóla var m.a.:

Skólinn verði athvarf nemenda þar sem umhyggja og velferð fyrir námi þeirra og þroska er í fyrirrúmi. Skólinn verður að vera athvarf foreldra sem geta hvenær sem er komið og tekið þátt í skólastarfinu í samvinnu við kennara og annað starfsfólk. Samvinna við heimilin er lykilþáttur svo skólastarfið blómstri.

Að mínu mati hefur þetta tekist og tekist vel.

Vitur maður sagði eitt sinn: Tveir vegslóðar lágu inní skóg, ég fór þann sem minna hafði verið ferðast um, það breytti öllu.  

Þegar skóli og samfélag stendur á krossgötum og þarf að taka ákvarðanir er alltaf einhver valmöguleiki. Ef alltaf sá sami fær að velja og kann bara eina leið að lausn verður alltaf farinn sami vegur og sömu lausnir birtast sem gera lítið fyrir þróun samfélags og skólastarfs.

Samfélagið valdi að búa til nýjan framsækinn skóla með tvö skólastig undir sama þaki. Skólinn hefur nú þegar sannað gildi sitt og mikilvægi fyrir samfélagið á Árskógsströnd, það hefur alla tíð verið mikilvægt fyrir Ströndina að hafa skóla í Árskógi og svo verður áfram.

Af hverju er skólinn góður? Hann er góður vegna þess að þar vinnur starfsfólk sem hefur metnað fyrir vinnunni sinni, er jákvætt og vinnur með stefnu skólans, faglegur hópur, samheldinn og í stöðugri þróun í þeirri viðleitni að efla starf sitt með uppeldi og menntun barna skólans í öndvegi. Nemendur skólans hverju sinni eru frábærir hver á sinn hátt og foreldrar og nærsamfélagið (velunnarar) hafa frá upphafi stutt við bakið á okkur, tekið þátt og verið virkir þátttakendur í uppbyggingu skólans.

Við erum sannarlega á réttri leið og getum verið stolt af skólanum okkar, við erum þó alltaf manneskjur sem geta ekki gert betur en hæfni og geta hvers og eins nær og nemendur menntast á þann hátt sem þeim er mögulegt miðað við aðstæður sínar og umhverfi. Já við erum á réttri leið, höfum gert marga frábæra hluti, en við erum bara 2 ára og það er ungur aldur í skólamálum og því ætti enginn að reikna með því að við séum búin að finna hina einu sönnu formúlu um skólastarf sem gengur upp í alla staði. Við erum manneskjur, við gerum okkar besta, lærum af mistökum og höldum áfram.

Tveir vegslóðar lágu inní skóg, ég fór þann sem minna hafði verið ferðast um, það breytti öllu.  Við erum óhrædd að fara aðrar leiðir og við munum gera meira af því á næstunni, við stöldrum við það sem er gott og fetum þá leið en hikum ekki við að fara ótroðnar slóðir.

Megi gæfan fylgja okkur öllum áfram, með ósk um jákvæðni, virðingu og metnað á nýju skólaári, set ég Árskógarskóla formlega í þriðja sinn.

 

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson

skólastjóri Árskógarskóla