Í Árskógarskóla eru nemendur á tveimur skólastigum, leik- og grunnskóla. Starfsfólk starfar þvert á skólastig með öllum börnum allt eftir verkefnum hverju sinni. Þessar skilgreiningar eru ekki endanlegar en gefa mynd af fjölbreyttum störfum skólans.
Skólastjóri er forstöðumaður skólans og ber ábyrgð á að skólinn starfi samkvæmt lögum og reglum. Hann veitir faglega forystu, skipuleggur skólastarfið í samráði við starfsfólk, ræður kennara og annað starfsfólk. Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans út á við, vinnur með skólayfirvöldum, menntamálaráðuneyti o.fl. Skólastjóri vinnur með skóla-foreldraráði og foreldrafélagi, ber ábyrgð á útkomu skólanámskrár og starfsáætlunar og stuðlar að því að markmiðum skólans sé framfylgt. Hann fylgist með störfum þeirra sem í skólanum vinna og tekur þátt í að leysa þau mál sem upp koma varðandi nemendur og starfsfólk.
Deildarstjóri stýrir daglegu starfi leikskólastigs og hefur umsjón með faglegu starfi og skipuleggur foreldraviðtöl og önnur samskipti við foreldra. Ber ábyrgð á að unnið sé eftir skólanámskrá og starfsáætlun skólans á deildinni. Tryggir að sérhvert barn á deildinni fái kennslu, leiðsögn, umönnun og/eða sérkennslu eftir þörfum. Ber ábyrgð á að meðferðaráætlunum sérfræðinga vegna einstakra barna sé framfylgt.Deildarstjóri er staðgengill skólastjóra.
Umsjónarkennari fylgist með námi og þroska nemenda sinna, leiðbeinir þeim og hefu reglulegt samband við foreldra. Umsjónarkennari fylgist einnig með námi nemenda sinna hjá öðrum kennurum. Umsjónarkennari skal með skráningu upplýsinga og ýmsum matsaðferðum hafa yfirsýn yfir gengi og líðan nemenda sinna, nám, hegðun og leik. Hann sér um skráningu á námsmati. Umsjónarkennari sér um að tilkynningar berist frá skólanum til nemenda og heimila þeirra. Umsjónarkennari leitast við að skapa góðan bekkjaranda, notalegt námsumhverfi og búa til bekkjarreglur og sáttmála með nemendum.
Starfsmaður á leikskóla starfar með börnum í leik og starfi undir stjórn deildarstjóra og framfylgir faglegri stefnu skólans.
Skólaliði II starfar með nemendum í leik og starfi utan og innan kennslustofu. Annast gangavörslu, frímínútnagæslu, aðstoðar í matar- og neyslutímum og starfar við lengda viðveru/dægradvöl. Auk þess sér starfsmaður um ræstingu á vinnustað, tekur á móti aðsendum mat, tekur til léttar veitingar, annast lítilsháttar innkaup. Ekki er gert ráð fyrir matseld nema t.d. að búa til graut.
Stuðningsfulltrúi I starfar með nemendum beggja skólastiga með einhvers konar fötlun, röskun og/eða sérþarfir samkvæmt skilgreiningu sérfræðings. Sérþarfir nemendanna eru þess eðlis að þeir þurfa sérstakan starfsmann eða stuðning með sér í öllu skólastarfi. Meðal verkefna eru félagslegur stuðningur og þjálfun. Stuðningsfulltrúi sinnir einnig frímínútnagæslu.
Leikskólakennari vinnur að uppeldi og menntun barnanna. Fylgist vel með velferð þeirra og hlúir að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins svo að þau fái notið sín sem einstaklingar. Tryggir að sérhvert barn á deildinni fái kennslu, leiðsögn, umönnun og/eða sérkennslu eftir þörfum.
Kennarar gegna lykilhlutverki í skólastarfinu. Á þeim hvílir sú skylda að miðla þekkingu til nemenda og leitast við að uppfylla þau markmið sem skólinn hefur sett. Þeir annast kennslu samkvæmt stundaskrá og fylgjast með því að nemendur fari eftir skólareglum. Kennarar vinna að undirbúningi kennslustunda, yfirferð verkefna, auk margs konar skýrslugerða og fleiri starfa sem skólastjóri felur þeim.
Þroskaþjálfi vinnur m.a. að verkefnum á sviði valdeflingar, ráðgjafar, umönnunar, uppeldis, fræðslu, leiðsagnar og stjórnunar með það að markmiði að auka lífsgæði og bæta velferð fólks á heildrænan eða einstaklingsmiðaðan hátt óháð aldri og aðstæðum.