Eyfirski safnadagurinn 5. maí

 

 

Vertu gestur í heimabyggð á eyfirskum safnadegi!

 

Söfnin í Eyjafirði opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 5.
maí. Tilefnið er eyfirski safnadagurinn en markmiðið með deginum er að vekja
athygli á þeirri fjölbreyttu og áhugaverðu safnaflóru sem Eyjafjörður hefur
upp á að bjóða. Söfnin munu þennan dag kynna starfssemi sína og bjóða uppá
margt áhugavert þar má nefna listflug, ratleik, upplestur, leiðsögn,
bátsferð, brauðbakstur á hlóðum, gamaldags leiki, vagnferðir í Hrísey og tónlist gestum að kostnaðarlausu.  

Sameiginleg heimasíða
Sameiginleg heimasíða safnanna
www.sofn.is (www.museums.is) verður opnuð
þennan sama dag. Heimasíðan er afraksturs sameiginlegs kynningarátaks safnanna í Eyjafirði en þegar hefur verið gefinn út sameiginlegur bæklingur Söfnin í Eyjafirði.

Fjölbreytt safnaflóra
Eftirfarandi söfn verða opin og aðgangur er ókeypis: Minjasafnið á Akureyri,
Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit, Sigurhæðir hús Matthíasar Jochumssonar, Safnasafnið á Svalbarðströnd, Nonnahús, Listasafnið á Akureyri, Gamli bærinn í Laufási, Náttúrgripasafn Ólafsfjarðar, Síldarminjasafnið á Siglufirði, Iðnaðarsafnið, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Flugsafn Íslands, Amtsbókasafnið, Hákarlasafnið og Holt í Hrísey og Davíðshús.

Safnarútur - skildu bílinn eftir heima !
Söfnin í samvinnu við Sérleyfisbila Akureyrar, leiðsögumenn á Norðurlandi og
Vaxtarsamning Eyjafjarðar bjóða uppá svokallaðar safnarútur. Auk þess verður
safnastrætó á ferðinni um Akureyri í samstarfi við Akureyrarbæ.

Safnarúta 1 fer á Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Safnasafnið og Gamla
bærinn í Laufási. Heimkoma kl 15.
Safnarúta 2 fer á Byggðasafnið Hvol á Dalvík, Náttúrugripasafnið í Ólafsfirði
og Síldarminjasafnið á Siglufirði. Heimkoma kl 16.

Farið verður frá upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akureyri í Hafnarstræti 82

kl 10. Lágmarks þátttakendur 10 manns. Leiðsögumaður verður með í för og þátttaka er ókeypis.

Safnastrætó : Frá Nætursölunni kl. 13, 14, 15 og 16  en strætóinn keyrir á milli safnanna á Akureyri með leiðsögumanni.

Verkefnið er í samstarfi við Akureyrarstofu og Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi.