93. fundur í stjórn Menningarfélagsins Bergs ses.
Haldinn í Bergi 2. júní 2020. Fundur hófst kl. 16:00.
Mætt: Freyr Antonsson, Dóróþea Reimarsdóttir, Gunnþór E. Gunnþórsson, Íris Hauksdóttir, Kristjana Arngrímsdóttir og Björk Hólm Þorsteinsdóttir. Freyr formaður stýrði fundi.
Dagskrá
Vikan framundan
Björk gerði grein fyrir starfsemi sem er framundan í húsinu þessa vikuna.
Fundargerðir
Farið yfir fundargerðir 91. og 92. fundar og lítilsháttar lagfæringar gerðar.
Uppsögn Blágrýtis á samning við Berg ses
Borist hefur uppsögn frá Blágrýti ehf á leigusamningi um veitingarými í Menningarhúsinu Bergi sem og um ræstingar frá og með mánaðamótunum maí/júní 2020. Uppsagnarfrestur er 3 mánuðir en óskað er eftir að losna strax undan þeim kvöðum sem kveðið er á um í leigusamningi og ræstingum. Samþykkt að leysa Blágrýti undan samningi frá og með 1. Júní 2020 en óskað verður eftir því að Blágrýti afturkalli ekki veitingaleyfi í húsinu fyrr en Menningarfélagið hefur fengið veitingaleyfi. Björk falið að ræða við Blágrýti um nýtingu á hluta af búnaði í eigu Blágrýtis þar til tekist hefur að útvega búnað í staðinn. Framkvæmdastjóra falið að fara yfir stöðu búnaðar og skil sbr. ákvæði í leigusamningi. Helga og öðrum starfsmönnum Blágrýtis ehf eru færðar bestu þakkir fyrir samstarfið undanfarin ár.
Framhald veitingareksturs í Bergi
Lögð var fram tillaga um að Menningarfélagið Berg ses sæki í eigin nafni um veitingaleyfi II í Menningarhúsinu Bergi og ráði til sín starfsmann í allt að 100% stöðu til 3ja mánaða á meðan leitað er framtíðarlausnar á veitingarekstrinum í húsinu. Framtíðarmöguleikar ræddir.
Búnaður vegna veitingareksturs
Framkvæmdastjóra og stjórnarformanni falið að fara yfir þann búnað sem til er og leggja fram tillögu á næsta fundi stjórnar Menningarfélagsins að kaupum á nauðsynlegum búnaði.
Sölukerfi framtíðarinnar
Öll sala í Menningarhúsinu Bergi, hvort sem er vegna tónleika eða veitinga, fari í gegnum kassakerfi Menningarfélagsins Bergs ses. Ráðast þarf í kaup á þessum búnaði sem fyrst.
Að auka tengsl við íbúa Dalvíkurbyggðar
Formaður leggur til að leitað verði leiða til að auðvelda íbúum Dalvíkurbyggðar að fylgjast með Menningarfélaginu Bergi ses og hafa áhrif á starfsemina í Menningarhúsinu Bergi. Stefnt verði að því að Berg verði fyrsti valkostur þegar ýmsum tímamótum er fagnað (fermingar og brúðkaup) og að fundargerðir verði birtar á heimasíðu Menningarhússins Bergs.
Ráðning sumarstarfsmanns
Til að tryggja samfellu í þjónustu í Menningarhúsinu Bergi og í ljósi þess að Blágrýti ehf hafði nýverið ráðið til sín starfsmann til að sjá um veitingarekstur og ræstingar telur stjórnin farsælast að leita til viðkomandi um að halda áfram störfum á meðan leitað er framtíðarlausnar sbr. lið 4. Frey Antonssyni, formanni, og Björk Hólm Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra, falið að ræða við þann starfsmann um að verða starfsmaður Menningarfélagsins Bergs ses. Þeim er einnig falið að semja um kaup og kjör í samræmi við umræður á fundinum.
Kristjana Arngrímsdóttir vék af fundi undir lið 8.
Fundi slitið kl. 18:40.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is