Menningarhúsið Berg er menningarhús íbúa Dalvíkurbyggðar. Í húsinu er fjölbreytt starfsemi en leitast er við að skapa veglega umgjörð og aðstöðu utanum hvers kyns menningarstarfsemi til dæmis listsýningar, tónlistarflutning og menningartengda ferðaþjónustu auk þess að bjóða upp á aðstöðu fyrir ráðstefnuhald.
Á aðalfundi Sparisjóðs Svarfdæla 2007 var tekin ákvörðun um að reisa menningarhús fyrir íbúa sveitarfélagsins. Í framhaldi af aðalfundinum gerðu Dalvíkurbyggð og Sparisjóðurinn með sér samkomulag um að Dalvíkurbyggð tæki að sér rekstur hússins fyrir hönd íbúa. Fyrstu skóflustunguna tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, föstudag fyrir Fiskidag 2007. Í kjölfarið hófust framkvæmdir við húsið og var verkinu lokið 2009. Teiknistofan AVH sá um alhliða hönnun mannvirkisins og var Tréverk ehf. byggingaraðili.
Á fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar var ákveðið að mynda sjálfseignarstofnun með opinni þátttöku einstaklinga og /eða fyrirtækja um rekstur hússins og starfsemi. Stofnfundur í Menningarfélaginu Bergi ses. var haldinn 1. júlí 2009.