Tónleikar með Eddu Erlendsdóttur píanóleikar í Berginu laugardaginn 7. nóvember

Næstkomandi laugardag 7. nóvember verða tónleikar með Eddu Erlendsdóttur píanóleikara í Bergi menningarhúsi. Tónleikarnir hefjast kl. 15:00 og er aðgangur ókeypis. Á tónleikunum mun Edda leika verk eftir Bach, Haydn og Schubert.

Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum m.a. á Íslandi, Frakklandi,Skandinavíu, Englandi, Belgíu, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Rússlandi, Lettlandi, Úkraínu Bandaríkjunum og nýverið í Kína.

Hún tekur reglulega þátt í tónlistarlífinu á Íslandi m.a. hjá Kammermúsikklúbbnum, á Tíbrá tónleikum í Salnum og á Listahátíð í Reykjavík. Hún tók þátt í frumflutningi á Íslandi á Brúðkaupinu eftir Stravinsky á Listahátíð árið 2002. Hún hefur oft komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og flutti píanókonsert eftir Haydn undir stjórn Kurts Kopecky í nóvember 2007.

Efnisskrár hennar spanna fyrstu verkin skrifuð fyrir fortepíanó (C.P.E.Bach) allt til samtímatónlistar ( Pierre Boulez) og hafa vakið athygli fyrir frumleika. Hún hefur verið ötull flytjandi íslenskrar píanótónlistar erlendis og hafa íslensk tónskáld samið fyrir hana.

Edda hefur verið virkur þátttakandi í kammertónlist. Hún átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi í 15 ár. Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó.

Hún hefur átt farsælt samstarf með mörgum af fremstu tónlistarmönnum landsins og ber þar helst að nefna Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara en diskur þeirra með verkum eftir Kodaly, Martinu, Janacek og Enescu hlaut árið 2004 íslensku tónlistarverðlaunin.

Edda hefur gert fjölda upptökur bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp, m.a. fyrir þáttinn “Tíu fingur” sem sýndur var í íslenska ríkissjónvarpinu í janúar 2007.

Hún hefur gefið út diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach, Alban Berg, Grieg, Haydn, Schubert, Schönberg og Tchaikovksky sem hlotið hafa viðurkenningu og lof gagnrýnenda. Hún hefur nýverið gefið út geisladisk með píanókonsertum eftir Haydn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky


Edda Erlendsdóttir píanóleikari er búsett og starfandi í París. Hún er prófessor í píanóleik við Tónlistarskólann í Versölum.

Efnisskrá:


C. P.E. BACH : SÓNATA í c-moll Wq. 60

(1714-1788) Allegretto

Largo - Presto


RONDÓ í e-moll Wq. 66

Kveðjuóður til Silbermann hljómborðs
míns


FANTASÍA í C-dúr Wq. 61/6


J. HAYDN: ARIETTA CON 12 VARIAZIONI í Es-dúr Hob. XVII:3

(1732-1809)


Hlé


F. SCHUBERT: SÓNATA í a-moll op posth.164 D 537

(1797-1828) Allegro, ma non troppo

Allegretto quasi Andantino

Allegro vivace

J. HAYDN: ANDANTE CON VARIAZIONI í f- moll Hob. XVII :6

(1732-1809)

Athugasemdir