Tónleikar Hljómeyki 23. maí

Tónleikar Kammerkórsins Hljómeyki verða í menningarhúsinu Bergi 23. maí kl. 20:000

Sönghópurinn Hljómeyki undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar flytur Náttsöngva op. 37 eftir Sergej Rakhmanínov í menningarhúsinu Bergi á Dalvík að kvöldi Hvítasunnudags, 23. maí. Einsöngvarar eru Lilja Dögg Gunnarsdóttir, mezzósópran, Pétur Húni Björnsson, tenór, og Hjálmar P. Pétursson, bassi.

Náttsöngvarnir, sem stundum eru kallaðir Vespers, þykja vera einn af hápunktum rússneskrar kirkjutónlistar. Verkið er kórverk án undirleiks og byggir það að stórum hluta á sálmalögum og kirkjutóni rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar auk stefja Rakhmanínovs sjálfs sem eru undir sterkum áhrifum kirkjutónsins.

Verkið er skrifað fyrir hefðbundinn rússneskan kór með fjórum röddum (sem þó eru oft tví- eða þrískiptar) og basso profondo, þ.e. sérlega djúpum bassaröddum í viðbót við venjulega kórbassann og gegnir hann verulegu hlutverki í hljómheimi verksins.

Þekktasti hluti verksins er sjötti kafli þess, Bogorodítse Devo, sem margir kórar hafa sungið og þykir undurfallegur. Rakhmanínov sjálfur var svo ánægður með fimmta kafla verksins, sem er söngur Simeons, að hann bað um að hann yrði fluttur við útför sína, og var það gert. Sá kafli er frægur fyrir niðurlag sitt þar sem bassinn syngur b-moll skala niður á kontra B.

Aðgangseyrir: kr. 1.500

Athugasemdir