Sungið á selló á Klassík í Bergi

Sungið á selló á Klassík í Bergi

Fyrstu tónleikar hjá Klassík í Bergi veturinn 2012 - 2013 fóru fram laugardaginn 12. janúar síðastliðinn. Þar léku Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari og Sam Armstrong píanóleikari. Sæunn er búsett í New York og kemur reglulega fram í virtum tónleikasölum veraldarinnar, svo sem Carnegie Hall og Disney Hall. Sam er önnur stjarna af yngri kynslóðinni og er sömuleiðis tíður gestur í ekki síður nafntoguðum tónleikasölum, þeirra á meðal Wigmar Hall og Concertgebouw.

Efnisskrá tónleikanna var fjölbreytt en þau fluttu verk eftir Martinu, Britten, Beethoven og Brahms. Þrjú verkanna á efnisskrá Sæunnar og Sams Armstrongs voru byggð á söngverkum og því er ekki fjarri sanni að segja að í Bergi á Dalvík hafi verði sungið á selló. Nýútgefin upptaka Sæunnar á verkum Brittens hefur vakið athygli útí í hinum stóra tónleikaheimi, en eftir Beethoven fluttu þau Sam tilbrigði við stef eftir Mozart; Bei Männern. Eftir Brahms hljómuðu útsetningar á sönglögum hans fyrir selló og píanó. Tónleikunum lauk svo með tilbrigðum við stef ítalska óperuhöfundarins Rossinis, sem unnin eru af Martinu.

Samspil sellós og píanós naut sín einkar vel í salnum í Bergi en Sæunn hafði á orði að mjúkir tónar flygilsins pössuðu frábærlega vel við sellóið. Útkoman var stórkostleg og unun fyrir alla þá sem á hlýddu. Tónleikarnir voru persónulegir og fengu gestir innsýn í uppáhaldsverk Sæunnar sem kynnti verkin jafnóðum og þau voru leikin. Ekki skemmdi fyrir að sem uppklappslag léku þau Sæunn og Sam áður óflutt lag eftir Michael Clark, samið sérstaklega fyrir selló og píanó.

Tónleikar Sæunnar og Sam eru aðeins fyrstu tónleikarnir hjá Klassík í Bergi veturinn 2012 – 2013. Næstu tónleikar í seríunni fara fram 16. febrúar en þá mæta til leiks Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari. Petér Maté píanóleikari mun síðan slá botninn í seríuna þann 16. mars.

Athugasemdir