Að kvöldi Fiskidagsins, laugardaginn 7. ágúst, mun South River Band halda tónleika í Bergi. South River Band er ein lífseigasta hljómsveit landsins í alþýðu- og þjóðlagageiranum og fagnar nú á þessu ári 10 ára starfsafmæli. Hljómsveitin hefur sent frá sér fjórar plötur á þessum árum og er sú fimmta í vinnslu. Rætur sveitarinnar liggja hér aðeins norðar, hún fæddist að Kleifum í Ólafsfirði - nánar tiltekið á bænum Syðri-Á, sem hún dregur nafn sitt af. Liðsskipan hefur lítið breyst á þessum 10 árum, það eru reyndar komnir í hópinn tveir meðlimir sem eru ekki ættaðir frá Ólafsfirði, þe. Dalvíkingurinn Jón Kjartan Ingólfsson, sem leikur á kontrabassa og Akureyringurinn Matthías Stefánsson, sem leikur á fiðlu og gítar. Ólafsfirðingarnir í hópnum, stofnmeðlimir sveitarinnar, eru Ólafur Þórðarson, sem leikur á gítar, Ólafur Sigurðsson, sem leikur á mandólin og Helgi Þór Ingason, sem leikur á harmonikku. Allir syngja þeir svo líka þegar við á.
Tónleikarnir hefjast kl. 20:30.
Aðgangseyrir: kr. 1.500.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir