Guðmundur Ármann sýnir olíumálverk og vatnslitamyndir í Bergi í október. Sýningin verður opnuð 5. október kl 15.00 og lýkur henni fimmtudaginn 31. október. Sýninginn er opin á opnunartíma Bergs, virka daga 10 – 17 á laugardögum 11 – 17, lokað á sunnudögum. Vatnslitamyndirnar sem eru málaðar undir berum himni eru rannsókn á línum, litum og formum sem birtast okkur í náttúrunni og eru kveikjan að olíumáverkunum sem eru einskonar innra landslag. Olíumálverkin eru unnin á vinnustofunni sem niðurstöður upplifunar sem var skráð í vatnslit. Myndefnið hverfist um nærlönd við Eyjafjörð.
Guðmundur Ármann Sigurjónsson lauk prentmyndasmíða námi 1962. Hóf myndlistarnám 1962 við Myndlista-og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist af málunardeild 1966. Að því loknu lá leiðin til Svíþjóðar og hóf þar nám við Konsthögskolan Valand, Göteborgs Universitet 1966 lauk þar námi við grafíkdeild skólans 1972. Kennararéttindarnám við Háskólann á Akureyri 2002-2003 og í framhaldi af því meistaranám í kennslugrein lista við Háskólann á Akureyri. Guðmundur lauk M. Ed. námi í menntunarfræðum í nóvember 2012. Í dag starfar Guðmundur Ármann sem kennari á myndlistakjörsviði listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri.
Fyrsta einkasýning Guðmundar var á Mokkakaffi í Reykjavík 1962 þar sem hann sýndi blekteikningar. Nú fylla einkasýningarnar rúma tvo tugi. Guðmundur hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Þátttaka í norrænum myndlistarverkefnum og alþjóðlegum grafík sýningum. Til gamans má geta að finna má verk eftir Guðmund sem eru í eigu Listasafni Íslands, Listasafni Alþýðu, Listasafninu á Akureyri, Moderna Museet Stokkhólmi og Tidaholm Museet Svíþjóð.
Athugasemdir