Ljósmyndasýningin Eyfirskir fossar í Bergi

Svavar Alfreð Jónsson, prestur í Akureyrarkirkju, opnar ljósmyndasýningu sína um Eyfirska fossa í Bergi laugardaginn 15. janúar kl. 14:00. Við opnunina mun hann setja stuttlega frá verkefninu og ræða við gesti um sýninguna.

Svavar ferðaðist um Eyjafjörðinn sumarið 2010 og tók myndir af fossunum sem margir eru vel faldir í myrkri gilja og gljúfra. Þrátt fyrir að fossarnir séu ekki í hópi stærstu og kraftmestu fossa landsins eru þeir allir afreksfossar, hver með sínu lagi. Sumir háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym. Aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir kasta sér niður i þverhnípið með þungum og nötrandi drunum. Mikið vantar í upplifun okkar af Eyjafirði séu fossarnir þar ekki enda eru þeir veigamikill þáttur í náttúrudásemdum héraðsins.

Sýningin verður opin frá 15. janúar til 5. febrúar frá kl. 12:00-18:00 virka daga og á milli kl. 14:00-17:00 um helgar. 


Athugasemdir