Ljósbrot - Arna Valsdóttir sýnir videomálverk í Bergi Menningarhúsi á Dalvík

Laugardaginn 6. október 2012 opnar sýning á videoverki sem Arna vann fyrir sýninguna: “ Staðreynd 5 -… brotabrot-… oggolítill óður til kviksjárinnar” í Gerðubergi vorið 2012. Verkið sem Arna sýnir að þessu sinni er annað af tveim videoverkum sem Arna vann fyrir sýninguna í Gerðubergi og hefur það ekki verið sýnt áður sem sjálfstætt verk.

Verkið er upprunnið í gagnvirka verkinu “ Ég er ögn í lífrænni kviksjá” sem Arna ferðaðist með um landið á árunum 2004-2009 og setti upp í margvíslegum rýmum eins og t.d. í Garðskagavita, Nýlistasafninu og Hafnarfjarðarleikhúsinu, en einnig í skólum og á ráðstefnum. Tók verkið lit og lögun af hverjum stað og þeim gestum sem hann sóttu. Kviksjána setti Arna upp í Gerðubergi á Vetrarhátíð árið 2009 og byggði hún sýningu sína í Gerðubergi á þeirri innsetningu.

Verkið segist Arna kalla videomálverk þar sem það er unnið útfrá sömu grunnþáttum og hefðbundið málverk en hún notar ljósbrot og myndbandstökuvél til þess að draga fram myndina.

Verkið byggir á því að Arna þenur upp í rýmið þá tækni sem kviksjáin eða “kaleidoscope” byggir á, gerir ákveðinn gjörning í því og tekur upp á myndband.

Verið velkomin

Heimasíða Örnu er: www.arnavals.net

Athugasemdir