Handritin alla leið heim - opnun

Handritin alla leið heim - opnun

Sunnudaginn 12. maí næstkomandi kl. 13:00 verður opnuð í Bergi sýning um handritið Physiologus. Sýningin er liður í verkefninu Handritin alla leið heim sem Árnastofnun gengst fyrir í samvinnu við menningarráð og söfn víða um land. Verkefnið tengist því að á þessu ári eru 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara og snýst um að koma upp sýningum á völdum handritum úr safni hans, sem næst þeim stað þaðan sem Árni fékk þau.

 
Á sýningunni í Bergi verður sýnd nákvæm eftirgerð blaða úr skinnhandriti frá um 1200 sem geyma afar fornan texta. Þetta er íslensk þýðing úr latínu á riti sem upphaflega var ritað á grísku á 2. öld e.Kr. Þar er fjallað um ýmsar skepnur og einkenni þeirra lögð út á guðfræðilegan hátt. Handritið er ekki síst merkilegt fyrir myndir sem sýna dýrin og eru áreiðanlega með elstu teikningum sem varðveist hafa á Íslandi. Handritið kom til Árna Magnússonar frá séra Þórði Oddssyni á Völlum í Svarfaðardal.
Um endurgerð handritsins sá Hersteinn Brynjólfsson forvörður en Finnur Arnar Arnarson myndlistarmaður hannaði sýninguna ásamt Sigrúnu Sigvaldadóttur grafískum hönnuði. Menningarráð Eyþings styrkti verkefnið.
 
Á opnunarhátíðinni í Bergi á sunnudag munu Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur og Hugleikur Dagsson teiknari lýsa kynnum sínum af handritinu og koma eftirgerðinni fyrir á sýningunni en Svanhildur Óskarsdóttir handritafræðingur fjalla um efni þess og sögu. Einnig verður flutt tónlist og boðið upp á léttar veitingar. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

  

      

Athugasemdir