Laugardaginn 8. apríl opnaði Guðmundur Ármann Sigurjónsson sýningu á olíumálverkum og vatnslitamyndum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Við opnun sýningarinnar fluttu Guðlaugur Viktorsson söngvari og Þórarinn Stefánsson píanóleikari tónlist. Verkin á sýningunni eru einstaklega falleg og hvetjum við alla til að líta við næstu vikur og skoða. Sýningin stendur til 1. maí
Myndefnið er sótt í nánasta umhverfi málarans og til náttúru Eyjafjarðar. Vatnslitamyndirnar eru málaðar úti undir berum himni, oftast á góðviðrisdögum, en stundum á mörkum hins mögulega fyrir vatnsliti. Viðvangsefnið er náttúran eins og hún birtist í mismunandi ljósi dagsins. Leitast er við að færa á vatnslitaörkina myndefnið eins og það birtist sjónum horfandans. Þannig eru vatnslitamyndirnar eins náttúrutrúverðugar og efniviðurinn, og endurspegla hugarástand og færni þess sem á penslinum heldur. „Að standa úti í ólíkum veðrum og drekka í sig umhverfið með öllu skilningarvit opin upp á gátt, er upplifun sem á sér enga líka,“ segir Guðmundur Ármann um vatnslitamyndirnar. „Meðvitund um verkefnið að mála mynd skerpir athyglina og skynjunina til fullnustu. Það er töfrum líkast.“
Olíumálverkin eru unnin á vinnustofunni með þessar vatnslitamyndir í bakgrunni. Þá eru litasamsetningar og formspil náttúrunnar færð í nokkuð strangari myndbyggingu og brugðið á leik. Þegar málarinn Cézanne þurfti að útskýra fyrir félaga sínum hvers vegna hann leyfði sér að hnika frá réttri fjarvídd og einfalda myndefnið, sagði hann eitthvað á þessa leið: „Myndlistin býr yfir samræmi sem er hliðstætt náttúrunni en er ekki endilega hið sama.“ Málverkin vinnur Guðmundur í þessum anda en gengur jafnvel enn lengra í að brjóta upp form náttúrunnar og rannsaka grunnformin. „Þegar málað er innandyra á vinnustofunni og málarinn áttar sig á því að glímunni við myndefnið er lokið og að myndin ber í sér minni náttúrunnar, ilm sumarsins – það er töfrum líkast!“ segir Guðmundur Ármann.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir