Femmes Fatales og konudagurinn

Næstkomandi sunnudag, 19.febrúar, á konudaginn, opnar í Bergi menningarhúsi sýningin Femmes Fatales eða Tálkvendi en verkin á sýningunni eru eftir listamanninn Erró. Sýningin opnar kl. 15:00. Við opnunina mun Haraldur Ingi Haraldsson fjalla um listamanninn og sýninguna og Kristjana Arngrímsdóttir syngja tangólög.

Konur ráða ríkjum í seríunni Tálkvendi sem Erró hefur unnið að með hléum í hartnær tvo áratugi. Í þeim skapar listamaðurinn veröld valkyrja þar sem meðal annars má finna nunnur, stríðskonur, sjónvarpsstjörnur og ekki síst hetjur úr teiknimyndablöðum. Verkin eru samsett úr myndbrotum sem við þekkjum víða úr neyslumenningunni en Erró beitir fyrir sig þekktum klisjum á sama tíma og hann dregur úr þeim. Hér er myndflöturinn hlaðinn óvefengjanlegum kvenlegum kynþokka, bæði kröftugum stríðskonum frá fornri tíð og geimhetjum úr framtíðinni. 

Á sýningunni er hluti seríunnar til sýnis eða fjórtán grafíkverk af tæplega þrjátíu. Öll verkin tilheyra Errósafni Listasafns Reykjavíkur.

Kaffihúsið í Bergi er að sjálfsögðu opið á konudaginn og tilvalið að koma á skemmtilega sýningu og fá sér kaffi og kræsingar í leiðinni.

Athugasemdir