Er nálgast jólin æfingar standa yfir hjá Leikfélagi Dalvíkur

Hjá Leikfélagi Dalvíkur standa nú yfir æfingar á léttri og skemmtilegri jóladagskrá sem áætlað er að frumsýna föstudaginn 7. nóvember næstkomandi kl. 20.30.
Dagskrá þessi, er ber heitið “Er nálgast jólin...” inniheldur m.a. 3 frumsamin leikverk unnin af leikhópnum og leiðbeinendum, söng, dans, undirleik og fróðleik er tengist jólunum.
Nemendur í 9. bekk Dalvíkurskóla túlka m.a. gömlu íslensku jólasveinana í kvæðagerð Jóhannesar úr Kötlum, nemendur í 4. bekk Dalvíkurskóla dansa fjörugt jólarokk, söngelskar meyjar og sveinar úr byggðalaginu taka lagið, hljómsveitin Ofnæmir leika og syngja 2 jólalög og fleira og fleira.
Umsjónaraðilar og leikstjórar sýningarinnar eru þau Arnar Símonarson, Lovísa María Sigurgeirsdóttir og Sólveig Rögnvaldsdóttir. Að sögn þeirra hafa æfingar staðið yfir síðustu 4 vikur og gengið afar vel. Það hefur verið góður andi í hópnum, mikil samstaða og afar góð samvinna.
Þessi jóladagskrá er sérstaklega hugsuð sem skemmtun fyrir alla aldurshópa og miðaverði er mjög svo stillt í hóf.
Um tónlistarflutning sjá þeir Dagmann Ingvason og Einar Arngrímsson. Ljósahönnun er í höndum Péturs Skarphéðinssonar.
Um 55 manns úr öllu byggðarlaginu koma að þessari uppfærslu með einum eða öðrum hætti.

Áætlað er að bjóða upp á 12 sýningar og almennt miðaverð fyrir börn og fullorðna er einungis kr. 1.000.
Miðapantanir eru í síma LD : 868 9706 og það er Hulda sem er við símann.
Nú er um að gera fyrir fjölskylduna, vini og félaga, vinnustaði og klúbba að skella sér í leikhúsið og eiga þar notalega stund í skammdeginu.

Athugasemdir