Október er stútfullur af spennandi viðburðum og nýjungum en hér fyrir neðan má sjá þá viðburði sem í boði verða.
Bókasafnið bryddar á ýmsum nýjungum í vetur. Fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði mun safnið standa fyrir hádegisfyrirlestrum í Bergi. Fyrsti fyrirlesturinn verður 4. október kl. 12:15-13:00. Þá mun Sveinn Brynjólfsson jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands kynna lokaverkefni sitt í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Alla þriðjudagsmorgna frá kl. 10:00-12:00 mun héraðsskjalasafnið standa fyrir vinnustofu með ljósmyndir í Bergi en verkefnið er unnið í samvinnu við félag eldri borgara. Allt áhugafólk er velkomið. Frekari upplýsingar gefa: Anna Baldvina s. 460 4935 annab@dalvikurbyggd.is og Laufey í s. 460 4930 laufey@dalvikurbyggd.is
Athugið einnig breyttan opnunartíma bókasafnsins en frá og með 1. október verður opnunartími virka daga styttur um eina klukkustund en í staðinn verður opið á laugardögum.
Fyrstu tónleikar í tónleikaröðinni Klassík í Bergi 2012– 2013 verða í nóvember. Líkt og í fyrra verða þrennir tónleikar í seríunni, í nóvember, janúar og mars. Hægt verður að kaupa áskriftarkort sem og miða á staka tónleika. Upplýsingar um flytjendur, verð og fleira kemur innan tíðar.
Dagskráin:
Úr ljóðum Laxness
Sunnudaginn 30. september kl. 16:00
Þann 23. apríl síðastliðinn voru 110 ár frá fæðingu Halldórs Laxness. Af því tilefni mun Kammerkór Norðurlands flytja lög við ljóð Nóbelskáldsins. Á efnisskránni verða þekkt kórlög við ljóð Laxness og einnig hefur kórinn fengið til liðs við sig nokkur tónskáld sem hafa samið ný lög fyrir þetta tilefni. Flutt verða lög eftir; Jóhann G. Jóhannsson, Báru Grímsdóttur, Jón Ásgeirsson, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, Jón Nordal, Heimi Sindrason og Hauk Tómasson.
Stjórnandi Kammerkórs Norðurlands er Guðmundur Óli Gunnarsson.
Áhrif veðurs og landslags á snjóflóð í Svarfaðardal og nágrenni
Fimmtudaginn 4. október kl. 12:15
Fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði mun Bókasafn Dalvíkurbyggðar standa fyrir hádegisfyrirlestrum í Bergi. Fyrsti fyrirlesturinn verður 4. október kl. 12:15-13:00. Þá mun Sveinn Brynjólfsson jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands kynna lokaverkefni sitt í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn mun taka um 30 mínútur í flutningi en síðan mun Sveinn svara fyrirspurnum á meðan tími leyfir. Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Þorpin - Bubbi leggur land undir fót
Laugardaginn 6. október kl. 20:30
Nú í haust mun Bubbi Morthens leggja land undir fót og heimsækja landsbyggðina auk þess sem hann mun koma fram á höfuðborgarsvæðinu. Heiti tónleikaraðarinnar að þessu sinni er "Þorpin" og vísar Bubbi þar annars vegar í landsbyggðina og hins vegar í síðustu geislaplötu sem hann gaf út og ber nafnið Þorpið. Hún kom út í vor og hefur selst mjög vel. Á þeirri plötu hverfur Bubbi að hluta til aftur í ræturnar og er kassagítarinn framar en hann hefur verið lengi. Miðaverð er kr. 2.500, miðasala á midi.is og við innganginn.
Stebbi og Eyfi - tónleikar
Miðvikudaginn 17. október kl. 20:30
Stebbi og Eyfi sendu frá sér geisladiskinn „Fleiri notalegar ábreiður“ fyrir síðustu jól og munu nú á haustmánuðum heimsækja höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina og kynna diskinn með tónleikahaldi. Ásamt því að flytja lög af nýja geisladiskinum munu hljóma margar af þeim dægurperlum, sem þeir félagar hafa sent frá sér bæði
saman og í sitthvoru lagi, lög eins og „Hjá þér“, „Líf“, „Undir þínum áhrifum“, „Okkar nótt“, „Álfheiður Björk“, „Dagar“, ,,Draumur um Nínu“ o.m.fl. Einnig munu þeir félagar spjalla á léttum nótum við tónleikagesti og segja óborganlegar sögur úr bransanum.
Miðaverð: kr. 2.500.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir