Dagskrá mánaðarins í Bergi

Dagskrá marsmánaðar í Bergi var borin í hús í dag. Íbúar eru hvattir til þess að halda henni vel til haga og fylgjast með fjölbreyttum viðburðum mánaðarins.

2. mars, þriðjudagur
Tónleikar kl. 21:00, Kammerkór Norðurlands
Á efnisskránni eru íslensk kórverk, frumsamin lög og þjóðlagaútsetningar. Fimm verkanna eru samin sérstaklega fyrir kórinn, þar af þrjú af Páli Barna Szabó, Haugnesingi og kennara við Tónlistarskóla Dalvíkur. Kórinn er skipaður menntuðu og reyndu tónlistarfólki af gervöllu Norðurlandi. Hann hefur einbeitt sér að flutningi íslenskrar kórtónlistar síðustu ár, og hlotið glimrandi dóma gagnrýnenda og tónlistarunnenda.
Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson, hestamaður á Bakka í Svarfaðardal.
Miðaverð er 1500 kr. Ekki er hægt að taka við greiðslukortum.

3. mars, miðvikudagur
Stóra upplestrarkeppnin kl. 14:00
Hin árlega upplestrarkeppni nemenda í 7. bekk verður haldin í Bergi menningarhúsi miðvikudaginn 3. mars kl. 14. Í þessari lokakeppni keppa fjórir fulltrúar Dalvíkurskóla, þrír fulltrúar Grunnskóla Ólafsfjarðar og einn fulltri Árskógarskóla. Dómarar verða Helga Björt Möller, Hörn Harðardóttir og Kristrún Sigurðardóttir. Foreldrar og aðrir aðstandendur eru hjartanlega velkomnir.

4. mars, fimmtudagur
Sögustund á bókasafninu kl. 17:00.
Lesið verður úr bókum fyrir börn á öllum aldri.

6. mars, laugardagur
Píanótónleikar kl. 17:00
Kristján Karl Bragason er upprennandi píanóleikari sem stundar nú mastersnám í píanóleik. Hann er einn af okkar fremstu ungu píanóleikurum í dag. Kristján Karl er fæddur og uppalinn hér á Dalvík og ætlar nú að leyfa okkur að hlusta á sig leika ýmis verk á píanó.

26. mars, föstudagur
Tónleikar kl. 16.30
Kennarar Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar koma fram.
Leikið verður á ýmis hljóðfæri. Flutt verður aðallega klassisk tónlist, en einnig léttari lög með söng.
Nemendur Tónlistarskólans og foreldrar eru hvattir til að mæta og einnig eru allir ibúar Dalvíkurbyggðar velkomnir.

27. mars, laugardagur
Svarfdælskur mars kl. 14:00
Í tilefni af því að 1100 ár munu vera frá því að Þorsteinn Svörfuður og Karl rauði námu hér land verður dagskrá í Bergi þar sem Svarfdælasögu verður gerð skil af fræðimönnum og einnig af Karlakór Dalvíkur sem flytur sex lög Guðmundar Óla Gunnarssonar við texta úr Svarfdælu, þar af tvö samin sérstaklega af þessu tilefni. Til að styrkja tengslin við Íslendingasögurnar er einnig fyrirhugað að tengja atburði úr Sturlungu við Svarfaðardal með aðstoð rithöfunda, fræðimanna og leikmanna.

Athugasemdir