Septembermánuður tekur vel á móti okkur með sólskini og góðu veðri. Börn með skólatöskur boða haustkomuna og göngur og réttir setja svip sinn á mánuðinn. Réttardagar standa þétt fyrrihluta mánaðarins, en þegar líður að miðjum mánuði hefst tónleikahald í Bergi. Takið helgina 11.—12. september frá, frábærir tónleikar eru á dagskrá báða dagana. Sögustundin á bókasafninu er tekin upp að nýju með reglubundnum hætti eftir sumarhlé, hún verður á sínum stað fyrsta fimmtudag hvers mánaðar kl. 17:00 í allan vetur. Fiskidagurinn mikli 2010 verður rifjaður upp með íbúaþingi og myndasýningu og krakkarnir í Grunnskóla Dalvíkurbyggðar sem hófu vetrarstarfið með spennandi þemaverkefni um heimabyggðina sýna afraksturinn í Bergi þegar líða tekur á mánuðinn.
2. september, fimmtudagur
Sögustund á bókasafninu kl. 17:00.
Lesið verður úr bókum fyrir börn á öllum aldri. Sögustundin verður fastur liður á dagskrá í allan vetur fyrsta fimmtudag hvers mánaðar kl. 17:00.
11. september, laugardagur
Tríó Reykjavíkur—Tónleikar kl. 15:00.
Tríóið var stofnað árið 1988 af Halldóri Haraldssyni
píanóleikara, Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara.
Árið 1996 tók Peter Maté pianóleikari við
af Halldóri. Á ferli sínum hefur tríóiið komið fram á fjölmörgum tónleikum hérlendis og erlendis.
Tónleikarnir eru í samstarfi við FRÓN tónlistarfélag.
12. september, sunnudagur
Enseble Úngút—Tónleikar kl. 20:30.
Ensemble Úngút hefur starfað undanfarin 4 ár og er skipað þeim Peter Arnesen og Rósu Kristínu Baldursdóttur, sem bæði eru búsett í Salzburg í Austurríki. Þau hafa reglulega fengið til liðs við sig kontrabassaleikarana Einar Sigurðsson og Harald Guðmundsson og einnig söngkonuna Hörpu Þorvaldsdóttur. Á þessum tónleikum verða þau þrjú, Rósa Kristín, Peter og Einar. Efnisskrá tónleikanna samanstendur af íslenskum þjóðlögum og sönglögum í nýstárlegum búningi Peters Arnesen jazzpíanista og tónskálds. Tónleikarnir í Bergi verða fyrstu tónleikar Ensemble Úngút á Norðurlandi, en söngkonan, Rósa Kristín, bjó um langt skeið í Svarfaðardal.
23. september, fimmtudagur
Fiskidagurinn mikli - íbúafundur kl. 17:00.
Fiskidagurinn mikli 2010 verður rifjaður upp með íbúafundi og myndasýningu.
Heimabyggðin—Sýning grunnskólanema
Krakkarnir í Grunnskóla Dalvíkurbyggðar hófu vetrarstarfið með spennandi þemaverkefni um heimabyggðina og við fáum að sjá afraksturinn í Bergi þegar líða tekur á mánuðinn.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir