„Ég hef hlakkað mikið til að spila hér í Bergi og húsið og tónleikarnir í heild stóðust allar mínar væntingar" sagði Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari eftir hreint magnaða tónleika í Bergi á Dalvík sl. laugardag. „Salurinn hefur fallegan hljóm sem auðveldar manni að ná fram mismunandi blæbrigðum. Flygilinn hefur líka fallegan og hlýjan óm og þá sakar ekki að hafa þessa mögnuðu fjallasýnin út um gluggann. Venjulega kýs maður að loka á umhvefið svo það trufli ekki einbeitinguna en þegar ég kom hingað og sá útsýnið veltist ekkert fyrir mér að hafa dregið frá gluggum. Fyrir vikið verða þetta sérlega eftirminnilegir tónleikar“.
Víkingur segist hafa fylgst með því úr fjarlægð þegar Dalvíkingar komu sér upp menningarhúsi og segir það sérlega spennandi að fá að taka þátt í menningarlegri uppbyggingu þess eins og með tónleikaröðinni „Klassík í Bergi“. „Það er mér sérstakur heiður að fá að ríða á vaðið í þessari metnaðarfullu tónleikaröð. Ég hef áhuga á að gera meira af því hér eftir en hingað til að spila út um land á Íslandi og vil gjarnan gera það að árlegum viðburði. Þá er frábært að hafa sali og aðstöðu á borð við þessa. Það er raunar ekki víða á landinu“
Næstu tónleikar í kammertónleikaröðinni Klassík í Bergi 2011-2012 verða 21. janúar 2012 en þá spila þær Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari. Þann 17. mars 2012 koma svo fram Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir