Hljómsveitin Árstíðir mun halda tónleika í Bergi menningarhúsi næstkomandi föstudagskvöld, 22.júní, kl. 21:00. Frábær viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Meðlimir sveitarinnar hafa á undanförnum árum myndað góð tengsl við tónlistarunnendur í höfuðstað Norðurlands og hélt sveitin m.a. útgáfutónleika í Menningarhúsinu að Hofi í nóvember sl.
Nokkur tími er liðinn síðan Árstíðir komu fram á tónleikum hér á landi, en meðlimir hafa að undanförnu litið hýru auga til meginlands Evrópu og komið þar víða við á síðastliðnum tveimur árum.
Það sem af er ári hefur sveitin þó tekið því rólega og einbeitt sér að endurútsetningum laga af báðum breiðskífum sínum, en sú síðari „Svefns og vöku skil“ kom út í október á síðasta ári. Í júlí hefst svo formlega tímabil tónleikaferða um mið- og austur Evrópu en til stendur að koma fram á tónleikum og tónlistarhátíðum í allt að 10 löndum á nokkrum mánuðum. Meðal þess helsta sem mun bera á daga þeirra í sumar er þátttaka í tónlistarhátíðinni „Colours of Ostrava“ í Tékklandi um miðjan júlí en hún er stærsta árlega tónlistarhátíðin þar í landi.
Goðabraut | 620 Dalvík | Sími: 460-4930 | netfang: berg@dalvikurbyggd.is
Athugasemdir